Mikil sóknarfæri ef vinstri flokkum tekst að ná saman

Það eru augljós sóknarfæri fyrir öflugt sameiginlegt vinstra framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum, segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. Þó sé alls óvíst hvort flokkar nái að sameinast á tvístruðum vinstri væng. „Það eru verulegar hræringar á vinstri væng stjórnmálanna. Þar hefur verið ákveðin upplausn að einhverju leyti og nokkrir smáflokkar að berjast um fylgið,“ segir Eiríkur. Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórn, tilkynnti í gær að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram undir merkjum flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hún boðaði nýtt framboð sem hún vonar að verði öflugt samstarf á vinstri vængnum. Eiríkur segir óvíst hverjir myndu ganga til liðs við slíkt framboð, það fari eftir persónulegum metnaði og afstöðu einstakra flokksmanna á vinstri vængnum; líklega úr röðum Vinstri grænna, Sósíalista og Pírata. Á Alþingi sé engin rödd vinstra megin við Samfylkinguna en kannanir bendi til þess að slík hreyfing gæti tekið til sín á bilinu 10% til 15% fylgi. Þó sé alls óvíst, miðað við forsöguna, að flokkarnir nái saman. „Breiður vinstri flokkur, vinstra megin við Samfylkingu sem næði saman þessum flokksbrotum sem hafa tvístrast milli þriggja flokka sem ekki ná inn á þing [...], ég held að það séu sóknarfæri fyrir slíkan flokk. Maður hefur í sjálfu sér ekki enn séð þá sátt verða, þrátt fyrir þetta útspil Sönnu. En það er hins vegar ekki útilokað.“ Mikil óvissa framundan hjá VG Líf Magneudóttir, fulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórn, segir samstarf á vinstri vængnum hafa verið til umræðu lengi. Flokkurinn hafi ekki tekið afstöðu til þátttöku í framboði Sönnu og ákvörðun um slíkt verði ekki tekin fyrr en á nýju ári. „Það yrði ekki undir formerkjum gamalla framboða, það yrði eitthvað nýtt,“ segir Líf. Mikil óvissa sé fram undan hjá Vinstri grænum og nú sé úrslitastund fyrir hreyfinguna að bjóða fram undir eigin merkjum í borginni. Svandís Svavarsdóttir tilkynnti í gær að hún hygðist hætta formennsku Vinstri grænna. Eiríkur segir þetta marka þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Þá sé óvíst hvort nýr leiðtogi myndi bæta stöðu flokksins. „Við höfum ekki alveg séð þann leiðtoga stíga fram enda er Svandís að fara frá. Þá hlýtur bara að verða eitthvað rót sem kemst á mannskapinn og hvort hann finni sér síðan farveg á einhverjum nýjum vettvangi, það á bara eftir að koma í ljós,“ segir Eiríkur