Varaformaður Vinstri grænna segir flokkinn eiga tækifæri á öflugri endurnýjun, í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Flokkurinn ákveði á nýju ári hvort hann vilji ganga til liðs við nýtt vinstra framboð í borginni. „Ég að sjálfsögðu virði þessa ákvörðun Svandísar og er fyrst og fremst þakklátur fyrir mikilvægt framlag hennar til íslensks samfélags sem stjórnmálamanns og leiðtoga á síðustu tuttugu árum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður. Hann segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann sækist sjálfur eftir formennsku. Það séu tímamót fyrir flokkinn að Svandís hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér sem formaður áfram. Ekki síst eftir að Katrín Jakobsdóttir steig einnig til hliðar. Öllum tímamótum fylgi þó tækifæri. „Þau tækifæri felast hjá okkur núna, einfaldlega í öflugri endurnýjun í forystunni, vonandi þar með talið með ungu fólki sem brennur fyrir þeim gildum sem við stöndum fyrir; réttlátara samfélagi, náttúruvernd og mannréttindum. Það vantar sannarlega málsvara þess á Alþingi núna.“ Guðmundur segir að verulega hafi verið þrengt að í útlendingamálum og að honum finnist efnahagsstjórnin allt og hægrisinnuð. „Og virkjanagleðin ríður röftum. Þannig að það eru sannarlega tækifæri fyrir VG áfram í íslenskri pólitík.“ Nýtt framboð gæti verið öflugur valkostur Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi Sósíalista í borgarstjórn, kynnti fyrir helgi nýtt framboð fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor sem hún vonar að verði öflugt samstarf á vinstri vængnum. Guðmundur segir að ákvörðun um þátttöku í slíku framboði vera í höndum svæðisfélags VG í Reykjavík, og liggi líklega ekki fyrir fyrr en á nýju ári. „Persónulega tel ég jákvætt ef stjórnmálahreyfingarnar á vinstri vængnum í Reykjavík geta sameinað krafta sína í kosningunum í vor, með skýrri áherslu á samhjálp, en ekki sérhyggju, jafnt aðgengi að námi, mannréttindi, umhverfismál í forgrunni,“ segir Guðmundur. Reykjavíkurfélag VG hafi verið í samtölum við fólk úr öðrum hreyfingum síðan í haust. Hann segir að ákvarðanir verði teknar á félagslegum grunni. Mestu skipti að flokkar sem hugi á samstarf nái saman um áherslur. „Ef þetta er uppfyllt þá er það bara mjög spennandi, og gæti orðið mikilvægur og öflugur valkostur vinstra megin við Samfylkinguna. [...] Þetta er spennandi ef áherslur liggja saman, sem ég held að þær geri nú í öllum svona meginatriðum.“