„Það hefur ekki verið persónulegt markmið hjá mér að verða fræg eða vinsæl“

Borgarstjóri segir miður að persónulegt fylgi hennar sem slíkur mælist ekki hærra. Hún kveðst þó ekki hafa tekið að sér starfið til að öðlast vinsældir. Einungis tvö prósent aðspurðra vilja að Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur verði næsti borgarstjóri samkvæmt könnun Maskínu í síðustu viku. Könnunin var opin og hlutfallslega flestir, eða um þriðjungur, sögðust óákveðnir. Að sögn Heiðu væri ánægjulegt að njóta meiri vinsælda persónulega en hún kveðst þó ekki hafa tekið starfið að sér með það fyrir sjónum. „Ég er stolt af mínum verkum“ „Það hefur ekki verið persónulegt markmið hjá mér að verða fræg eða vinsæl. Mitt persónulega markmið hefur verið að ná árangri í pólitík, að mynda óvænt þennan meirihluta og að gera gagn fyrir borgarbúa,“ segir Heiða. „Það er kannski eitthvað markmið sem ég þarf að endurskoða og ég býð mig bara fram í fleiri viðtöl og samtöl við fólk. En ég er stolt af mínum verkum.“ Heiða bendir á að Samfylkingin hafi aftur á móti mælst vel í síðustu Gallup-könnun. „Við bættum við okkur í síðustu könnun, meirihlutinn, þannig við erum komin með 11 fulltrúa og það þarf 12 til að vera með meirihluta. Þannig við erum bara býsna brött, en við vitum auðvitað að við erum að bjóða okkur fram til þess að vinna fyrir Reykvíkinga og við erum hreyfingar sem viljum bjóða fram okkar verk og við vonum bara að borgarbúar treysti okkur áfram.“