Stefnir í allt að fjögurra milljarða niðurskurð á Landspítala

Umræður um fjárlögin héldu áfram á Alþingi í gær. Eins og frumvarpið lítur út núna þá þarf Landspítali að mæta hagræðingarkröfu upp á þrjá til fjóra milljarða sem forsvarsfólk spítalans segir í skriflegu svari til fréttastofu að spítalinn geti engan veginn mætt. 2,2 milljarðar vegna samningana Þar vega mest nýir kjarasamningar lækna sem voru samþykktir undir lok síðasta árs og tóku gildi 1. apríl. Viðbótarkostnaður vegna þeirra fyrir þetta ár og næsta er um 5,5 milljarðar á Landspítala og launabætur frá fjármálaráðuneytinu 3,3. Eftirstandandi halli er því 2,2 milljarðar samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. 640 milljónir á Akureyri Þessir samningar hafa líka haft umtalsverð áhrif á Sjúkrahúsið á Akureyri. Á ársgrundvelli er kostnaður vegna kjarasamninganna þar 640 milljónir með launatengdum gjöldum – að því gefnu að þau nái að fylla mönnunargatið, segir í skriflegu svari. Í samningunum er vinnuvikan stytt í 36 tíma og vinnuskyldu breytt. Á Akureyri vantar því um 28 stöðugildi, sem eru leyst með yfirvinnu og aðkomulæknum – sem þýðir að aðkeypt þjónusta eykst um 26 milljónir milli ára. Á Landspítalanum gera það um 80 stöðugildi. Forstjóri segist sjá fram á verulegan rekstrarhalla hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri á þessu ári en segir ekki tímabært að upplýsa um hann nákvæmlega. Sérnámslæknar hafa eftir kjarasamninginn hækkað að meðaltali um 10% í heildarlaunum upp í rúmlega 1,5 milljón á mánuði samkvæmt samantekt Landspítala. Sérfræðilæknar hafa hækkað um rúmlega 15% upp í tæplega 2,5 milljónir að meðaltali og yfirlæknar um allt að 14% upp í 2,8 milljónir í heildarlaun á mánuði. Yfirvinna vegna styttingar vinnuvikunnar vegur þungt. Vinnuvikan miðast við 36 tíma á viku en að meðaltali vinna sérnáms- og sérfræðilæknar 40 stunda viku og yfirlæknir aðeins rúmlega 40 stundir. En það er fleira sem veldur niðurskurði á Landspítala en samningarnir. Því ekki er gert ráð fyrir auknu fé til reksturs nýrrar matsdeildar hér í Fossvogi í fjárlagafrumvarpinu. Mikið hefur verið kallað eftir viðbyggingunni - þar eiga að vera 20 viðbótarlegurými fyrir bráðamóttökuna sem eiga að minnka álag og bæta aðstæður. Um helgina þurfti starfsfólk að grípa til þess ráðs að vista sjúklinga í bílakjallara við bráðamóttökuna vegna yfirfullrar deildar. Þegar hefur opnun viðbyggingarinnar verið frestað einu sinni vegna tafa á byggingarframkvæmdinni, sem er í höndum nýs Landspítala, nú er ráðgert að deildin verði tilbúin í byrjun nýs árs. Spítalinn segir að ef þau fái ekki stuðning við fjármögnun rekstursins verði ekki hægt að reka hana nema önnur þjónusta verði dregin saman. Landspítali segir að samtal sé hafið við stjórnvöld um fjármögnun rekstursins. Hvorki heilbrigðisráðherra né fjármálaráðherra höfðu tök á að veita viðtal í dag. Í skriflegu svari þess síðarnefnda segir að ef launakostnaður verði umfram kostnaðarmat samningana þurfi að bregðast við á næsta ári til að tryggja jafnvægi í rekstri spítalans - annað hvort með breyttri forgangsröðum innan fjárhagsramma heilbrigðisráðuneytis eða leiðréttingu úr almennum varasjóði fjárlaga.