Fjölmargir lögðu leið sína í Vindáshlíð í dag á árlegan jóladag. Fjölskyldur gátu meðal annars mætt með sína eigin sög og valið sér sitt eigið jólatré í skóginum. Daníel Steingrímsson fann sitt tré en hafði áhyggjur af því að koma því í bílinn. Eftir göngu í skóginum var gott að setjast niður með heitt súkkulaði og gæða sér á dýrindis kræsingum. Elísa Sif Hermannsdóttir, ein skipuleggjenda, sagði mikinn kærleik fylgja deginum og að jólasnjórinn væri kærkominn. Elísa Björg Andradóttir, 3 ára, beið spennt eftir jólasveinunum. Stúfur og Kertasníkir villtust á leiðinni úr fjöllunum en rötuðu loks á réttan stað. Eftir að hafa skoðað sig um völdu þeir sér 13 jólatré.