Ljósahátíð Gyðinga, Chanuka, var haldin áttunda árið í röð á Íslandi í dag. Um hundrað manns komu saman á Laugarvegi til að halda upp á Chanuka. „Við nutum þeirra miklu forréttinda og ánægju að fá utanríkisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, til að taka þátt,“ segir rabbíninn Avraham Feldman í tilkynningu. „Hún [utanríkisráðherra] kveikti á menorah-ljósinu og flutti fallega ræðu þar sem hún lýsti yfir stuðningi við samfélag gyðinga og menningu þeirra, tók skýra afstöðu gegn gyðingahatri og fordæmdi hina hræðilegu hryðjuverkaárás gegn gyðingum sem framin var í Sydney í dag.“ Avraham Feldman segist þakka Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra og Reykjavíkurborg fyrir stuðninginn við að gera þessa árlegu hátíð mögulega, sem og lögreglunni í Reykjavík. „Aðstoð hennar og samstarf er vel þegið, bæði á þessum viðburði og allt árið um kring.“ Avraham Feldman rabbíni tók einnig til máls við hátíðina. Í ræðu sinni sagði hann: „Árásin í Sydney í dag minnir okkur á að myrkrið er ekki aðeins eitthvað sem við lesum um í sögubókum. Það er enn til í heiminum og birtist skyndilega og með ofbeldi. Chanukah biður okkur ekki um að afneita þessu myrkri. Þess í stað kennir Chanukah okkur að hvert og eitt okkar getur skapað ljós og jákvæðni. Jafnvel lítið ljós ýtir burt miklu myrkri. Og þegar mörg ljós standa saman, yfirgnæfum við myrkrið. Sem gyðingar látum við ekki þá sem hata okkur skilgreina okkur. Við lifum ekki sem svar við þeim sem hata okkur. Við lifum vegna þess að við berum loga sem hefur brunnið í yfir 3000 ár. Megi ljós Chanukah veita þeim sem urðu fyrir áhrifum í Sydney huggun og öllum þeim sem finna fyrir varnarleysi í kvöld styrk.“