Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjastjórnar, segir mikinn árangur hafa náðst á fundum dagsins í Berlín með Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta og sendimönnum Úkraínustjórnar. Hann segir í færslu á X að fundað hafi verið á sjöttu klukkustund í húsakynnum kanslaraembættisins. Ljósmyndari AFP-fréttaveitunnar sá Zelensky yfirgefa skrifstofurnar klukkan níu í kvöld að staðartíma. Witkoff og Jared Kushner, tengdasonur Donalds Trump forseta, fara fyrir sendinefnd Bandaríkjastjórnar sem ræðir tuttugu þátta friðartillögur hans. Framhald fundahalda í fyrramálið Witkoff segir fundahöld hefjast að nýju í fyrramálið. Fulltrúi Úkraínuforseta hefur staðfest það. Zelensky sagði áður en hann hélt til Berlínar að vopnahlésáætlunin verði eins sanngjörn og verða megi fyrir Úkraínu, enda hafi Rússar byrjað átökin. Best sé að frysta víglínuna þar sem hún er nú, fremur en að gervallt Donbas verði gefið eftir líkt og Rússar krefjist. Trump hefur þrýst hart á að finna leiðir til að ljúka stríðinu en stjórnvöld í Kyiv og evrópskir samherjar þeirra leggja þunga áherslu á að friðarsamkomulag verði ekki í þágu Rússa. Fyrstu drög Bandaríkjaforseta þóttu bergmála um of helstu kröfur Rússa. Meginspurningarnar snúa að eftirgjöf úkraínsks landsvæðis og öryggistryggingu fyrir Úkraínu til framtíðar og hvort Rússar fallist á tillögur úr ranni Bandaríkjanna og ríkja Evrópu.