Jose Antonio Kast kjörinn forseti — sá hægrisinnaðasti síðan 1990

Jose Antonio Kast hefur verið kjörinn forseti Chile með 58 af hundraði atkvæða, þegar 80 prósent höfðu verið talin. Vinstrikonan Jeannette Jara viðurkenndi ósigur sinn og sagði skilaboð kjósenda skýr. Hún sagði í færslu á samfélagsmiðlum hafa óskað Kast til hamingju í þessari þriðju atrennu hans að forsetaembættinu. Kast er 59 ára lögfræðingur og hægrisinnaðasti maðurinn til að ná kjöri frá því lýðræði var endurreist í landinu fyrir 35 árum. Hann hefur meðal annars hótað að vísa hundruðum þúsunda óskrásettra innflytjenda úr landi, að stærstum hluta fólki frá Venesúela. Hans bíður glíma við staðnað efnahagskerfi, háa glæpatíðni og brotakennt þing. Jose Antonio Kast yfirgaf Íhaldsflokkinn árið 2016 og stofnaði Repúblikanaflokkinn, sem er lengra til hægri. Hann er kaþólskur, andstæðingur þungunarrofs jafnvel eftir nauðgun, hjónaskilnaða, samkynja hjónabanda og dánaraðstoðar. Hann kveðst álíta aðflutning fólks ráðabrugg harðlínuvinstrimanna og að innflytjendur hirði heimili fólks, fylli sjúkrarúm og þiggi bætur sem aðeins ættu að gagnast innfæddum. Kast hefur lýst aðdáun á einræðisherranum Augustos Pinochet, hershöfðingjanum sem réði ríkjum frá 1973 til 1999 og er talinn bera ábyrgð á dauða yfir þrjú þúsund Chilemanna. Kast er yngstur tíu systkina og erfði farsælt pylsugerðarfyrirtæki foreldra sinna sem voru þýskir innflytjendur. Faðir hans er talinn hafa verið félagi í Nasistaflokknum og barðist í síðari heimsstyrjöld. Kast segir hann hafa neyðst til hvors tveggja og segist alls ekki aðhyllast hugmyndafræði nasista. Kast þykir yfirvegaður, hagsýnn og yfirvegaður og skorta þann kjörþokka sem einkennir marga hægri sinnaða leiðtoga.