Rússneskir miðlar segja embætti saksóknara hafa gefið skilgreininguna út að kröfu þingsins frá í ágúst. Stöðin hafði mátt þola útsendingarbann og lokun vefsíðu og hefur frá 2022 verið merkt sem erlendur útsendari í Rússlandi og bætist nú í hóp annarra fjölmiðla, félagasamtaka og stofnana sem teljast óæskileg. Þeirra á meðal eru Fréttamenn án landamæra, Radio Free Europe/Radio Liberty og TV Rain. Samkvæmt rússneskum lögum telst það glæpsamlegt athæfi að eiga í samskiptum við óæskilegar stofnanir. Brotum geta fylgt þungar sektir eða fangavist. Jafnframt er ólögmætt að deila efni frá slíkum stofnunum, meðal annars á samskiptamiðlum. Hvað er Deutsche Welle? Deutche Welle er þýsk, óháð stöð sem hefur sent út útvarps- og sjónvarpsefni alþjóðlega allt frá árinu 1953. Samkvæmt upplýsingum DW er lögð áhersla á að bjóða óhlutdrægar fréttir á 32 tungumálum um allan heim. Megináherslan er lögð á umfjöllun um frelsi, mannréttindamál, lýðræði, réttaríkið, viðskipti, jöfnuð, heilbrigðismál og náttúruvernd, tækni og nýsköpun. Sjónvarps-, vef- og útvarpsútsendingar DW ná til 337 milljón notenda í hverri viku. Þrátt fyrir það náði Deutche Welle til tíu milljóna Rússa í ár, einkum með dreifingu myndefnis og beitingu tóla á borð við VPN, Tor-vafrann og smáforrita til að sneiða hjá banninu. Barbara Massing, aðalframkvæmdastjóri DW, segir aðgerðir Rússa til marks um þann vilja að þagga niður allt skoðanafrelsi. Það muni ekki stöðva Deutche Welle frá því að flytja fréttir af innrásarstríðinu og öðru því sem rússneskur almenningur er leyndur, segir hún. Ljóst sé að Rússlandsstjórn beri enga virðingu fyrir frelsi fjölmiðla og óttist eigin ríkisborgara sem leita sér upplýsinga, ástundi gagnrýna hugsun og vilji læra. Massing segir að Deutche Welle muni áfram uppfylla þá þörf þannig að almenningur geti myndað sér eigin skoðun. „Þrátt fyrir ritskoðun og lokanir af hálfu rússneskra stjórnvalda hefur rússneskumælandi þjónusta DW náð til enn fleira fólks en nokkru sinni áður,“ segir Massing.