Sjónarvottar segja sögur af hetjudáðum á Bondi-ströndinni

Nokkur hópur fólks er sagður hafa unnið miklar hetjudáðir á Bondi-ströndinni í Ástralíu þegar feðgar drápu fimmtán gesti ljósahátíðar og særðu yfir fjörutíu. Tíu ára stúlka er meðal hinna látnu. Lögregla felldi föðurinn en sonurinn liggur særður á sjúkrahúsi. Ávaxtakaupmaðurinn Ahmed al-Ahmed hefur verið hylltur sem hetja eftir að hann afvopnaði annan árásarmanninn. Myndskeið birtist á helstu fréttamiðlum heimsins í gær sem sýnir Ahmed laumast aftan að skotmanninum, glíma stund við hann, ná af honum byssunni og stökkva honum á flótta. Feðgar drápu fimmtán gesti ljósahátíðar á Bondi-ströndinni í Ástralíu í gær, þar á meðal tíu ára stúlku. Frásagnir af margvíslegum hetjudáðum annarra hafa birst í fjölmiðlum síðan, þar á meðal strandvarða og manns sem afvopnaði annan árásarmannanna. Ahmed lagði þá frá sér skotvopnið og lyfti höndum til að sýna að hann væri óvopnaður. Hann hlaut skotsár en er talinn munu ná sér að fullu. Hópur strandvarða hljóp í gegnum kúlnahríðina, samkvæmt frásögnum sjónarvotta, til að bjarga börnum sem voru að leik og koma þeim í skjól innandyra. Aðrir veittu særðu fólki fyrstu hjálp og reyndu að koma eins mörgum í húsaskjól og unnt var. Sært fólk var borið eftir ströndinni á brimbrettum og hríðir hófust hjá barnshafandi konu í einu af húsum brimbrettaklúbbs Bondi-strandarinnar. Strandvörðurinn Steven Pearce segir að öll sárabindi í húsinu hafi verið notuð til að hlúa að særðu fólki. Kirkjur, krár og veitingahús opnuðu dyr sínar fyrir fólki á flótta frá ströndinni. Fjöldaskotárásir hafa verið fátíðar frá því byssumaður myrti 35 í ferðamannabænum Port Arthur 1996. Þá var ástralskri byssulöggjöf breytt þannig að til fyrirmyndar þykir fyrir heimsbyggðina.