Faðirinn hafði byssuleyfi og sonurinn rannsakaður vegna hryðjuverkatengsla fyrir nokkrum árum

Sajid Akram, fimmtugur karlmaður sem talinn er hafa staðið að baki fjöldamorðinu á Bondi-ströndinni í Ástralíu, hafði byssuleyfi og leyfi til að stunda skotveiðar. Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk byggt á gyðingahatri. Mal Lanyon, lögreglustjóri í Nýju Suður-Wales, greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun. Lögregla segir allt kapp lagt á að greina ástæður verknaðarins. Lögreglumenn skutu manninn til bana á vettvangi og samverkamaðurinn Naveed Akram, sonur hans, liggur hættulega særður á sjúkrahúsi. Lögregla segir þá hafa borið sex skotvopn. Þeir drápu minnst fimmtán í árásinni og hátt í fjörutíu áður en þeir voru yfirbugaðir. ABC-sjónvarpsstöðin segir leyniþjónustu hafa árið 2019 rannsakað tengsl sonarins við mann sem tengdist hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Stöðin hefur eftir ónefndum heimildarmönnum að talið sé að feðgarnir hafi heitið samtökunum hollustu.