Lýðræðissinnaði auðjöfurinn Jimmy Lai var í morgun fundinn sekur af ákærum fyrir rétti í Hong Kong um leynimakk við erlend öfl til að grafa undan stjórnvöldum og að reka uppreisnaráróður í blöðum sínum. Mál Lais hefur vakið mikla athygli og fordæmingu vestrænna ríkja. Ákæran var gefin út á grundvelli öryggislaga frá 2020 sem þóttu til marks um vilja stjórnvalda til að grafa undan frelsi íbúa Hong Hong. Í úrskurði dómarans Esther Toh segir að hún hafi aldrei verið í vafa um að Lai ætlaði sér alltaf að veikja ríkisstjórn Kommúnistaflokks Kína og farið fremstur í flokki þeirra sem hvöttu erlend ríki til að beita Hong Kong og Kína þvingunum og innflutningshömlum. Endanlegur kostnaður þess hefði orðið að fórna hagsmunum almennings í Kína og Hong Kong. Lai hafi ræktað með sér hatur gegn flokknum öll fullorðinsárin sem sýnilegt sé í skrifum hans. Lai var útgefandi dagblaðsins Apple Daily sem gagnrýndi kínversk stjórnvöld harðlega og studdi hörð og stundum ofbeldisfull mótmæli árið 2019. Nefnd til varnar blaðamönnum hefur fordæmt sakfellinguna sem sé til marks um algera vanvirðingu stjórnvalda í Hong Kong fyrir frelsi fjölmiðla. Lai sat þögull og svipbrigðalaus undir en refsing hans verður ákveðin síðar. Hún gæti numið allt að lífstíðarfangelsi. Lai er breskur ríkisborgari og mannréttindasamtök þykja líkleg til að brýna Keir Starmer forsætisráðherra til að tryggja frelsun hans.