Er trommari í Diktu, flugmaður, Evrópumeistari í skotfimi og HM verðlaunahafi

„Þetta hófst með veiðiskap sem ég kynntist í gegnum félaga minn í menntaskóla. Hann lánaði mér riffil og ég fór með vinnufélaga mínum og prófaði að mæta á æfingu. Stuttu seinna var ég orðinn Íslandsmeistari og kominn á smáþjóðaleikana.“ Jón Þór varð Evrópumeistari í liggjandi skotfimi af 300 metrum í ágúst og í síðasta mánuði vann hann bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu í Kaíró. Fimm efstu keppendurnir enduðu allir með jafnmörg stig og var því raðað í sætin eftir því hversu mörg skot rötuðu í innsta hring. „Það voru blendnar tilfinningar því ég var hársbreidd frá því að verða heimsmeistari. En ég var glaður að vera í verðlaunasæti á heimsmeistaramóti. Mér hafði ekki dottið það í hug fyrir nokkrum árum.“