Rannsóknarnefnd skilar skýrslu sinni um snjóflóðið í Súðavík 1995

Rannsóknarnefnd Alþingis skilar forseta Alþingis í dag skýrslu sinni um snjóflóðið sem féll í Súðavík 16. janúar 1995. Nefndin var skipuð til að rannsaka hvernig staðið var að snjóflóðavörnum, skipulagi byggðar, gerð hættumats og upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa. Nefndin átti einnig að rannsaka fyrirkomulag og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins og að því loknu þar til hættuástandi var aflétt. Auk þess rannsakaði hún eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins. Finnur Þór Vilhjálmsson, héraðsdómari og formaður nefndarinnar, afhendir Þórunni Sveinbjarnardóttur, forseta Alþingis, skýrsluna klukkan eitt í dag. Efni skýrslunnar verður kynnt klukkan þrjú og verður þá hægt að lesa hana og fylgigögn á vef rannsóknarnefnda Alþingis. Alþingi skipaði rannsóknarnefndina í nóvember í fyrra í samræmi við lög um rannsóknarnefndir. Hópur aðstandenda og ástvina þeirra sem fórust í flóðinu hafði knúið á um rannsókn. Fjórtán fórust í snjóflóðinu, þar af átta börn.