Erfitt að halda úti sérnámi í heimilislækningum vegna undirmönnunar

Heimilislæknar upplifa ekki að markmið ríkisstjórnarinnar um að landsmenn hafi fastan heimilislækni sé að verða að veruleika. Þvert á móti finnst þeim þróunin vera í öfuga átt og að verið sé að erfiða rekstur í heilbrigðismálum. Auðsýnt að ekki verður hægt að fjölga læknanemum Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er að allir landsmenn hafi fastan heimilislækni. Um það bil ár er liðið síðan ríkisstjórnin tók við. Margrét Ólafía Tómasdóttir, heimilislæknir og lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, var gestur á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Hún segist ekki sjá í stefnu ríkisstjórnarinnar að það verði unnið að þessu markmiði. „Við erum í rauninni orðin svolítið vonsvikin með að heyra lítið um hvernig eigi að fara að þessu. Það sem við höfum tekið eftir í okkar nærumhverfi er frekar í hina áttina, að það sé verið að erfiða rekstur í heilbrigðismálum.“ Nokkra þætti megi taka til að sögn Margrétar. „Ef við byrjum bara á að ef við ætlum að ná að fjölga heimilislæknum þá þurfum við að mennta fleiri lækna. Þá þurfum við að auka í og fjölga læknanemum. Það var átak í síðustu ríkisstjórn, núna síðasta haust var þeim aukið upp í 75 og svo átti að fara upp í 90. Með því þurfti að fylgja, skiljanlega, aukin stöðugildi kennara við læknadeild. Nú held ég að háskólinn hafi aldrei séð jafn stóra niðurskurðarkröfu eins og er á honum núna þannig að það er auðsýnt í þeim niðurskurði að það verður ekki hægt að fjölga læknanemum. Ég held að það sé alveg augljóst.“ Hafa ekki fengið svar frá ráðuneytinu Til að fjölga heimilislæknum þurfi að styrkja sérnám í heimilislækningum. „Nú er ég kennslustjóri í sérnámi í heimilislækningum og við höfum verið að reyna að ná sambandi við ráðuneytið frá því í haust þar sem við erum í raun mjög undirmönnuð til þess að halda úti stóru sérnámi. Við höfum ekki fengið samtal eða samband við ráðuneytið, þau hafa ekki svarað póstunum okkar.“ Samkvæmt fjárlagafrumvarpi, eins og það lítur út núna, þarf Landspítali að mæta hagræðingarkröfu upp á þrjá til fjóra milljarða króna. Í skriflegu svari forsvarsfólks spítalans til fréttastofu segir að spítalinn geti engan veginn mætt þessari kröfu. Margrét bendir á að auk niðurskurðar á Landspítala sé einnig krafa um niðurskurð á heilsugæslustöðvum. „Það er auðvitað niðurskurður á heilsugæslunni líka. Rekstrarumhverfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu er í raun og veru mjög aðþrengt og miklar kröfur um niðurskurð þar líka. Þannig að ekkert af þessu, maður sér ekki hvernig þetta ætti að fjölga heimilislæknum.“