„Ég er bara þriggja barna úthverfahúsmóðir að reyna að leita svara við hvað er í gangi hérna á mannamáli,“ sagði markaðssérfræðingurinn og áhrifavaldurinn Camilla Rut í Morgunútvarpinu á Rás 2. Camilla Rut lét stjórnvöld heyra það á Tiktok í síðustu viku og var í kjölfarið boðið á fund með Daða Má Kristóferssyni, sem hún þáði og sýndi frá á miðlum sínum. Hlustaðu á viðtalið við Camillu Rut í Morgunútvarpinu hér fyrir ofan. Einhverjir töldu að maðkur væri í mysunni og að fundurinn væri hluti af ímyndarherferð Viðreisnar og jafnvel ríkisstjórnarinnar. Camilla hafnar þessu. „Ég var bara orðin þreytt og mig langaði að fá svör. Þetta hafði ekkert með ímynd Viðreisnar að gera,“ sagði hún. Morgunútvarpið er á dagskrá Rásar 2 frá klukkan 7 til 9 alla virka morgna.