Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór mikinn í gagnrýni á hvernig staðið er að aðgerðum til að bregðast við fíknivanda ungmenna. Hann vildi að forsætisráðherra svaraði því hversu mörg ungmenni hafi látið lífið á þeim tíma sem ríkisstjórnin hafi starfað. Jón Pétur vísaði til þess að vímuefnaneysla barna og unglinga hafi aukist undanfarin tvö ár og vísaði þar í ummæli Barnaverndarstofu Reykjavíkur. Hann rifjaði upp að í covid-faraldrinum hafi milljörðum króna verið veitt í allsherjar aðgerðir, meðal annars bólusetningar barna. Hins vegar bóli lítið á aðgerðum í þeim faraldri sem fíknivandi meðal ungmenna er. Hann spurði forsætisráðherra því næst hversu mörg ungenni hafi látið lífið frá því ríkisstjórnin tók við völdum. Spurningin lagðist illa í þingmenn meirihlutans og mátti heyra Sigmar Guðmundsson, þingflokksformann Viðreisnar, kalla að fyrirspurnin væri lágpunktur í þingstörfunum. Forsætisráðherra reyndi að sýna stillingu er hún svaraði fyrirspurninni og fór yfir þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu. Til að mynda hafi verið tryggt að meðferðarstofnanir loki ekki yfir sumartímann eins og undanfarin ár og í fjárlögunum sé að finna viðbótarfjármagn til málaflokksins. Hún sagðist þó sýna því skilning að fólk sé óþolinmótt. „Ég bið okkur hins vegar um að tala af yfirvegun og virðingu um þennan málaflokk. Við tókum í upphafi árs yfir málaflokk fjölþættra barna frá sveitarfélögunum sem hefur verið þungur baggi á þeim með þá von í brjósti að þau hefðu meira svigrúm til að sinna fyrsta stigs þjónustu en við tökum þetta til okkar og við vitum af áskorununum.“ Jón Pétur var bæði óhress með svörin og ummæli Sigmars. „Hér er alger afhjúpun í gangi, það er faraldur í gangi, börn og ungmenni að deyja á þeim tíma sem ríkisstjórnin hefur verið við störf og forsætisráðherra veit ekki hefur ekki hugmynd um neina tölu.“ Forsætisráðherra brást aftur við með því að hvetja til stillingar í umræðunni. „Þetta hreyfir við okkur öllum. En það er betra að ræða um þessi mál, ekki hér í efsta stigi heldur af yfirvegun. Það er betra að reyna að ná saman hér um úrræði en að fara í upptalningu á persónum eða leikendum.“