„Fólk þarf kannski aðeins að velja hvaða sögu það segir“

Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir það ekki koma sér á óvart að Bandaríkjastjórn sé með til skoðunar að biðja komufarþega sem fylla út ESTA að sýna samfélagsmiðlasögu sína 5 ár aftur í tímann. Ísland er á meðal þeirra 42 landa sem ferðamenn frá eru beðnir um að fylla út ESTA-eyðublað fyrir komuna til Bandaríkjanna. Gangi breytingar Bandaríkjastjórnar í gegn verða farþegar, auk spurninga um samfélagsmiðlanotkun, beðnir um að gefa upp símanúmer og tölvupóstföng sem þeir hafa notað undanfarin tíu ár og enn frekari upplýsingar um fjölskylduhagi og fjölskyldumeðlimi en áður hefur verið krafist. „Þetta skjal sem þau óska eftir að fólk afhendi. Það er bara ákveðin leið lands til þess að velja og setja skilyrði fyrir því hvernig fólk kemur til þess lands og samfélagsmiðlarnir eru flestir í eigu bandarískra fyrirtækja og það er eiginlega bara frá upphafi þeirra vega að Persónuvernd hefur bent á að það geti verið varhugavert að setja hvað sem er þarna inn,“ segir Helga. „Fólk þarf kannski aðeins að velja hvaða sögu það segir af því að það er verið að nota tæki og tól, eins og maður segir, erlends fyrirtækis og þá er fyrirtækinu í sjálfvald sett hvernig það notar gögnin,“ segir hún. Mögulegt sé að gögn sem þessi hafi áður verið skoðuð án þess að fólk hafi verið beðið um leyfi. Því sé það að einhverju leyti betra að upplýst sé um „Við vitum svo sem ekkert hvað hefur verið gert hingað til en það er allavega verið að fræða um þetta núna og það má kannski segja að það sé betra heldur en margt annað,“ segir hún. Margar stofnanir og fyrirtæki séu þegar að fara í gegnum samfélagsmiðla hjá fólki í margs konar tilgangi. „Þá er kannski ágætt að benda á það að íslenska þjóðin er kannski duglegri að birta myndir og sögur úr sínu nánasta lífi heldur en margar aðrar þjóðir í Evrópu af því fólk þar hefur meiri vitneskju og þekkingu á því hvernig hægt er að nota gögn gegn okkur,“ segir Helga. Aðspurð hvort skoðun á gögnum sem þessum standist persónuverndarlög hér á landi bendir Helga á að upplýsingar sem fólk setur inn á samfélagsmiðla séu í flestum tilfellum opinber gögn. „Hvernig fólk skilur eftir sögu, eða ef ég leyfi mér að segja slóð á samfélagsmiðlum, ef þetta liggur opið úti fyrir alþjóð þá eðlilega staldrar fólk við og spyr spurninga í starfsviðtali ef það er eitthvað sem fólki líst ekki nógu vel á hjá viðkomandi,“ segir Helga. „Ég er bara mjög undrandi að fólk sé ekki nú þegar að nota þetta á Íslandi líka, til dæmis í tengslum við starfsviðtöl,“ segir hún.