Sonur Reiner handtekinn

Nick Reiner, sonur leikstjórans Rob Reiner og eiginkonu hans Michele Singer, var handtekinn og er í varðhaldi í tengslum við andlát foreldra sinna. Lögregla telur þau hafa verið myrt á heimili sínu í Brentwood í Los Angeles. TMZ greinir frá . Áralangur fíknivandi Lögregla og slökkvilið voru kölluð til síðdegis í gær og upplýstu fljótlega um líkfundinn. Hjónin voru með stunguáverka , samkvæmt heimildarmanni sem er náinn fjölskyldunni, og lögreglan rannsakar málið sem morð. Hjónin bjuggu í Brentwood í úthverfi Los Angeles, sem er þekkt sem eitt auðugasta hverfi borgarinnar. Þau gengu í hjónaband árið 1989 og áttu þrjú börn saman, Jake, Nick og Romy Riener. Fyrir átti Reiner eina dóttur, Tracy, sem hann ættleiddi með fyrrverandi konunni sinni Penny Marshall. TMZ segir Nick Reiner vera í varðhaldi hjá lögreglustjóranum í Los Angeles, og vitnar í opinber skjöl á netinu. Hann hafi verið handtekinn seint í gærkvöld og úrskurðaður í gæsluvarðhald í dag. Hann sé í haldi gegn fjögurra milljón dollara tryggingu. Tímaritið People hefur eftir fjölda heimildamanna, sem hafa tengsl við fjölskylduna, að sonur þeirra hjóna hafi orðið þeim að bana. Lögreglan hefur ekki staðfest þetta. Engar upplýsingar um ákærur liggja fyrir. Hann ræddi áralanga baráttu sína við eiturlyfjafíkn í viðtali við People 2016. Hann segir fíkniefnaneyslu sína hafa hafist snemma á unglingsárum og það hafi að lokum leitt til að hann varð heimilislaus. Hann hafi verið inn og út af meðferðarstofnunum frá 15 ára aldri en þegar fíknin ágerðist hafi hann fjarlægst fjölskyldu og heimili og verið lengi heimilislaus í mörgum ríkjum. „Ég hefði getað dáið þegar ég var þarna úti. Þetta snýst allt um heppni, þú kastar tengingnum og vonar að þú lifir af.“ Rob og Nick Reiner gerðu mynd sem heitir Being Charlie, sem var lauslega byggð á baráttu Nicks við fíknivandann. Rob Reiner tjáði sig um myndina í viðtölum og sagði gerð hennar hafa styrkt samband þeirra feðga. „Þetta neyddi mig til að sjá skýrar og skilja betur hvað Nick gekk í gegnum,“ sagði Reiner í viðtali við BUILD. Mikil áhrif á skemmtanabransann Tracey Reiner, dóttir Reiners úr fyrra hjónabandi, sagði í viðtalið við NBC-fréttastofuna í Bandaríkjunum að hún sé orðlausm hún hafi hitt föður sinn daginn áður. „Ég kom úr bestu fjölskyldu í heimi. Ég er orðlaus. Ég er í áfalli.“ Miðlar vestanhafs segja morðið á hjónunum hafa haft mikil áhrif á skemmtanabransan í Hollywood. Margir minnast hjónanna með hlýhug. CNN hefur eftir Brent Lang , ritstjóra kvikmyndatímaritsins Variety, að Reiner hafi haft mikil áhrif á Hollywood sem hafi enst í áratugi. „Ég meina, hann var nánast borgarstjórinn í Hollywood. Hann var svo geðfelld og ljúf manneskja, hlýr, opinskrár og elskaður,“ segir Lang. Hann hafi haft mikla hæfileika, bæði fyrir framan skjáinn og bak við tjöldin, það hafi verið einkennandi fyrir hann. Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, segir Reiner hafa verið snilling með stórt hjarta sem sé á bakvið margar klassísku bíómyndirnar sem allir elska. Sean Astin, leikari og forseti SAG-AFTRA, stéttarfélags leikara, minnist Reiners í yfirlýsingu og sagði hann hafa verið eina mikilvægustu persónum í sögu kvikmynda og sjónvarps og að áhrif hans á bandaríska menningu hafi verið mikil. Leikkonan Jamie lee Curtis og eiginmaður hennar, Christopher Guest, sem lék í This is Spinal Tap, einni þekktustu mynd Reiners, sögðu í yfirlýsingu að þau væru í áfalli. Þau hefðu misst vini sína og einbeita sér að því að styðja við fjölskylduna. Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um morðið á samfélagsmiðli sínum Truth Social í dag. Hann sagði hjónin hafa verið myrt vegna reiði sem hann olli öðrum með andúð í sinn garð. Reiner var gagnrýninn í garð Trump og nýtti meðal annars rödd sína til að varpa ljósi á afskipti Rússa á bandarísku forsetakosningarnar 2016. Hann framleiddi einnig heimildarmynd um kristna þjóðernishyggju í Bandaríkjunum og barðist fyrir réttindum samkynhneigðra til að hjónabands.