Matcha er blettur ársins

Í lok árs eru jafnan veitt verðlaun í hinum ýmsu flokkum, ýmist fyrir árið sem er að líða eða næsta ár eins og gert var í flokknum litur ársins hjá Pantone. Í Bretlandi hefur fyrirtækið Unilever, sem framleiðir meðal annars þvottaefni, valið blett ársins. Það er græni bletturinn eftir hið japanska matcha-te. Í umfjöllun The Guardian segir að alla jafna glími Bretar mest við bletti eftir karrýsósu, eggjarauðu og rauðvín. Unilever birti í fyrsta sinn svokallaða blettavísitölu og þar er matcha efst á lista yfir bletti sem eru orðnir algengari samhliða þróun lífsstíls og menningar þjóðarinnar. Vinsældir matcha hafi aukist verulega undanfarin misseri, sérstaklega í formi svokallaðs matcha latte, heits mjólkurdrykkjar þar sem matcha er notað í stað kaffis. Drykkurinn er sérstaklega vinsæll meðal ungs fólks. Aðrir blettir sem skoruðu hátt hjá ungum Bretum á árinu voru blettir eftir Aperol Spritz og kúlute (e. bubble tea). „Þegar við sjáum ný litarefni og matarleifar koma fram prófum við nýjar formúlur og aðlögum vörurnar okkar,“ segir Donna Mcnab, forstöðumaður rannsókna og þróunar þvottavara hjá Uniliver. Yngra fólk líklegra til að sulla niður á sig og ólíklegra til að kunna við því ráð Fólk af Z-kynslóðinni var mun líklegra til að sulla niður á sig samkvæmt könnun sem Unilever gerði meðal 2 þúsund Breta. Sjötíu prósent svarenda af Z-kynslóðinni kváðust glíma við bletti í fötum í hverri viku til samanburðar við aðeins 16 prósent eftirstríðsárabarna (e. baby boomers). Þá kváðust 91 prósent fólks af Z-kynslóðinni hafa fleygt flíkum vegna bletta. „Við erum að taka eftir því að yngra fólk kann ekki að nota ráð til að fjarlægja bletti,“ segir Macnab.