Framkvæmdastjóri á Landspítalanum segir óásættanlegt að vista sjúklinga í bílageymslu bráðamóttökunnar. Það sé brot á sóttvörnum, persónuvernd og brunavörnum. Níu sjúklingar vistaðir í bílageymslu Snemma á föstudagsmorgun þurfti starfsfólk Landspítalans að grípa til þess ráðs að vista sjúklinga í bílageymslu við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi vegna yfirfullrar deildar. Þegar mest var voru níu sjúklingar inniliggjandi, en búið var að flytja þá alla inn á deildir seint á föstudagskvöld. „Þetta er eiginlega neyðarúrræði, alls ekki bjóðandi í raun og veru. En þegar ekki er um annað að ræða, þá verður maður stundum að nota hugmyndaflugið og sjá hvað maður getur gert til að hjálpa fólki,“ segir Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala. Reglur brotnar vegna skorts á legurýmum Álagsstigið á Landspítala hefur verið rautt í tæplega ár og er stærsta ástæðan skortur á legurými. Áttatíu og sex voru innlagðir á bráðamóttöku á föstudag, þar sem pláss er fyrir þrjátíu og sex. Fimmtíu og einn liggja nú inni á bráðamóttöku og er tuttugu og einn á bið. „Við erum að brjóta ýmsar reglur, það eru sóttvarnir, það er persónuvernd og brunavarnir. En þetta erum við að gera alla daga vegna þess að einingin er of lítil.“ Í opinberu bréfi sem stjórn félags bráðalækna sendi velferðarnefnd Alþingis kemur fram að staðan á bráðamóttökunni feli í sér kerfisbundin brot á mannréttindum sjúklinga, réttindum þeirra til mannlegrar reisnar, persónuverndar og næðis: „Félag bráðalækna lítur ekki á bílskúrslausnina sem einstaka frávik á tímum inflúensufaraldurs heldur langvarandi kerfisbundinn vanda sem stjórnvöld verða að axla ábyrgð á.“ Rekstur nýrrar matsdeildar ekki í fjárlagafrumvarpi Til stendur að reisa matsdeild við bráðamóttökuna með tuttugu viðbótarlegurýmum sem á að minnka álag og bæta aðstæður. Opnun hefur verið frestað einu sinni vegna tafa á framkvæmdinni, en fyrirhugað er að deildin opni um mitt næsta ár. Ekki er gert ráð fyrir auknu fé til spítalans til reksturs hennar í fjárlagafrumvarpi. Rafn segir að stjórnvöld þurfi að bregðast við. „Það er auðvitað stóra spurningin. Því að það er auðvitað þannig að þetta verður auðvitað ekki gripið úr lausu lofti að reka svona einingu. Það þarf að gera ráð fyrir þessu í fjárlögum, að það sé bætt í það sem spítalinn fær til þess að geta rekið svona deild.“ Í skriflegu svari frá heilbrigðisráðuneytinu segir að þó að féð sé ekki eyrnamerkt sérstaklega í fjárlögum næsta árs þýði það ekki að rekstur matsdeildarinnar sé ekki tryggður. Gert verði ráð fyrir kostnaðinum í fjárveitingum ráðuneytisins til spítalans. Gróft kostnaðarmat sé um einn milljarður á ári.