Fimm leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Valsmenn unnu nýliða Selfoss í miklum markaleik og fara inn í fríið sem fram undan er á toppi deildarinnar. Selfyssingar gáfu Valsmönnum sannarlega leik í kvöld en undir lokin voru Valsarar sterkari aðilinn og unnu þriggja marka sigur 43-40. Valsmenn sitja á toppi deildarinnar með 24 stig en fast á hæla þeirra koma Mosfellingar með 23 stig en Afturelding vann ÍR í kvöld eftir að hafa lent sex mörkum undir í upphafi leiks. 17-17 voru hálfleikstölur en Afturelding var svo sterkari á lokakaflanum og vann 34-31. Spenna á Ásvöllum Haukar áttu möguleika á að jafna Val að stigum en liðið mætti Fram í miklum spennuleik á Ásvöllum. Fyrri hálfleikur var mjög jafn og staðan að honum loknum var 13-12 Fram í vil. Jafnræðið var áfram mikið í seinni hálfleik en þegar um stundarfjórðungur var eftir komust Haukar þremur mörkum yfir í stöðunni 23-20. Framarar svöruðu, náðu að jafna og komast yfir og unnu með tveimur mörkum, 27-25, eftir dramatíska lokamínútu. Haukar sitja því í þriðja sæti með 22 stig, tveimur stigum minna en Valur á toppnum. Bikar og svo frí fram undan KA hafði svo betur gegn HK 30-27 og FH vann Stjörnuna 33-31. Ekki verður leikið í Olís deildinni fyrr en 4. febrúar en deildin fer í jólafrí og svo frí fram yfir EM karla í handbolta sem fram fer í janúar. Stöðuna í deildinni má sjá hér. Átta lið spila hins vegar bikarleiki á föstudag þegar 8-liða úrslitin fara fram. KA og Fram mætast, HK og Haukar, Fjölnir og ÍR og Afturelding og FH. Leikur KA og Fram hefst klukkan 18:00 og verður í beinni útsendingu á RÚV 2. Í kjölfarið, klukkan 20:00, verður leikur Aftureldingar og FH svo sýndur beint.