Óvíst hvort Guðmundur Ingi snúi aftur í barna- og menntamálaráðuneytið

Inga Sæland segir það eiga eftir að koma í ljós hvort Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, snúi aftur í barna- og menntamálaráðuneytið að loknu veikindaleyfi. Guðmundur Ingi fór í tímabundið veikindaleyfi fyrr í mánuðinum vegna hjartaaðgerðar sem hann gengst undir bráðlega. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur tekið við starfi mennta- og barnamálaráðherra í fjarveru Guðmundar Inga. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands þann 9. desember segir að Guðmundur Ingi snúi aftur til starfa eftir að hann nær fullum bata. Í Silfrinu í kvöld var Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sem Guðmundur tilheyrir, spurð að því hvort hún reikni með endurkomu Guðmundar Inga í ráðuneytið. Hún sagðist senda batakveðjur til Guðmundar sem fari í aðgerðina á næstu dögum. „Hann er að fara í opna hjartaskurðaðgerð, og þarf að skipta um hjartaloku eða eitthvað slíkt sem ég kann ekki alveg frá að segja, en ég vil bara sjá til hvernig framvindan verður. Það veit enginn hvernig það fer, einstaklingar þurfa að fara í endurhæfingu, mislanga, og annað slíkt eftir slíka aðgerð. Við óskum Guðmundi alls hins besta og bíðum eftir því að hann verði sprækur sem lækur,“ svaraði Inga Sæland.