Meirhluti þingmanna greiddi atkvæði með frumvarpi Ingu Sæland um eingreiðslu til þeirra sem hafa fengið greiddan lífeyri. Rúmlega 37 þúsund manns eiga von á greiðslu fyrir jól. Greiðslur þessar voru fyrst teknar upp í covid-faraldrinum og eru þær viðbót við hina hefðbundnu desemberuppbót. Full greiðsla nemur 73.390 krónum, hún er undanþegin skatti og leiðir ekki til skerðingar á öðrum greiðslum. Ekki var einhugur meðal þingmanna við atkvæðagreiðsluna. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks bentu á að tölur Tryggingastofnunar sýni að meðal þeirra sem fái þessar greiðslur sé einstaklingar með mjög háar tekjur og eignastöðu. Vísuðu þeir í upplýsingar frá Tryggingastofnun um hvernig greiðslunar skiptust í fyrra, meðal annars eftir tekju- og eignastöðu. Þær sýna meðal annars að tæplega 850 einstaklingar sem fengu greiðslunar í fyrra áttu eignir yfir 100 milljónir króna. Þingmenn meirihlutans bentu á móti að að í frumvarpinu væri að finna tekjuviðmið. Skerðast greiðslurnar um 3,3 prósent af tekjum umfram 1,2 milljónir á mánuði. Staðreyndin væri sú að megnið af greiðslunum fari til þeirra sem verst standa. Hins vegar er ekkert þak á eignir. Svo fór að þingmenn meirihlutans, ásamt þingmönnum Framsóknar og nokkrum nokkrum þingmönnum Miðflokksins, greiddu atkvæði með frumvarpinu en þingmenn Sjálfstæðisflokks og tveir þingmenn Miðflokks sátu hjá. Inga sökuð um aðför að fjölmiðlum Við atkvæðagreiðsluna gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar ásakanir Ingu Sæland í garð Viðskiptablaðsins sem hún sakaði um falsfréttaflutning. Viðskiptablaðið fjallaði um minnisblað Tryggingastofnunar í síðustu viku. Inga Sæland svaraði frétt blaðsins með myndbandi sem hún birti á samfélagsmiðlum og kallaði frétt Viðskiptablaðsins falsfrétt. „Mér leiðast svona falsfréttir og ég hvet ykkur til að vera gagnrýnin. Það er verið að skrökva upp á okkur, það er verið að reyna reyna að láta okkur líta illa út. Þetta eru pólitískir andstæðingar sem eru þarna hjá Hádegismóra í endalausum aðförum að okkur. Þetta er ómaklegt og þetta er ósatt,“ sagði Inga í myndbandinu. Rétt er að taka fram að ekkert er efnislega rangt í frásögn Viðskiptablaðsins enda er þar eingöngu vísað í skjal Tryggingastofnunar og greint frá því hvernig greiðslurnar í fyrra skiptust. Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal þeirra sem gagnrýndu orð ráðherrans. „Það er auðvitað ekkert í lagi að réttmætri gagnrýni sé mætt af ráðherra og kallað falsfréttir. Það er ekkert í lagi við það og það er því miður ekki í fyrsta skipti [...] Ég grátbið hæstvirta ríkisstjórn um að hætta að taka svona léttvægt á umræðu um falsfréttir. Það er ekki að sýna of mikinn kærleika, það er aðför að lýðræðislegri umræðu.“