Friðarsamkomulag milli Úkraínumanna og Rússa er skemmra undan en nokkru sinni fyrr að mati Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Viðræður hafa staðið yfir um helgina í Berlín. Donald Trump segist jafnframt hafa boðið Úkraínumönnum öryggistryggingar í anda 5. greinar stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins sem hann kveðst fullviss um að Rússar fallist á. Samkvæmt ákvæðum hennar jafngildir árás á eitt ríki atlögu að þeim öllum. Forsetinn gaf í skyn að Úkraínumenn yrðu í staðinn að gefa eftir þá hluta Donbas sem þeir enn haldi. „Þeir hafa hvort eð er tapað þessu landi,“ sagði Trump. Bandaríkjaforseti segist einnig hafa átt gott samtal undanfarna daga við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, og leiðtoga Evrópuríkja, þeirra á meðal Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Zelensky hefur ávallt þvertekið fyrir nokkra eftirgjöf lands. „Við ræddum einnig nokkrum sinnum við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og mér sýnist við nálgast niðurstöðu. Sjáum til hvað við getum gert,“ sagði Trump í samtali við fréttamenn á forsetaskrifstofunni. Hann vildi ekki tíunda frekar hvað þeim Pútín hefði farið á milli. Trump hefur ávallt útilokað inngöngu Úkraínu í Atlantshafsbandalagið og sagt slíkar vangaveltur eina af ástæðum innrásarinnar.