Ilham Aliyev, forseti Aserbaísjan, hefur lagt frumvarp til laga fyrir aserbaísjanska þingið sem gætu heimilað náðun yfir 20 þúsund manna í landinu. Aliyev segir fjöldanáðunina vera í skyni mannúðar og miskunnar í kjölfar endurheimtar ríkisins á Karabakh-héraðinu sem var undir stjórn Armena. Azertac , ríkisfjölmiðill í Aserbaísjan, greinir frá. Nær til kvenna, öryrkja, einstaklinga yfir 60 ára aldri og annarra Aliyev leggur til að 5 þúsund fangar verði frelsaðir og að um 15 þúsund manns fái dóma sína stytta, refsingar sínar felldar niður eða að dregið verði úr þeim. „Samkvæmt drögum að náðunarlögum er gert ráð fyrir að leysa undan refsingu eða refsiábyrgð þá einstaklinga sem tóku þátt í hernaðaraðgerðum til að verja fullveldi og landhelgi lýðveldisins Aserbaísjan, til að mynda í Patriotic-stríðinu og aðgerð sem beindist gegn hryðjuverkum sem fór fram 19. og 20. september 2023, auk nánustu aðstandenda þeirra sem féllu eða hurfu í þessum aðgerðum, einstaklinga sem urðu öryrkjar vegna hernaðarlegrar ögrunar lýðveldisins Armeníu gegn borgaralegum íbúum, konum, einstaklinga sem hafa náð 60 ára aldri, ólögráða einstaklinga við tíma brots og annarra einstaklinga,“ segir á Azertac. Óljóst er hvort áform Aliyevs nái til pólitískra fanga í Aserbaísjan. Fjöldi pólitískra fanga í landinu hefur vaxið á síðustu árum og telur í dag tæplega 400 manns, samkvæmt upplýsingum Evrópuþingsins . Ríkið hefur lengi sætt gagnrýni mannréttindasamtaka fyrir að kæfa stjórnmálalegar umræður og að setja sjálfstæðum fjölmiðlum takmarkanir. Í ágúst hófu Aserar friðarsamningaviðræður við Armena fyrir milligöngu Bandaríkjamanna en ríkin hafa átt í átökum um landsvæði í áratugi.