Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu segir að hugmyndafræði hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki virðist hafa knúið Akram-feðgana til voðaverkanna á Bondi-ströndinni. Þeir myrtu fimmtán sem tóku þátt í ljósahátíð gyðinga á ströndinni og stjórnvöld hafa hingað til lýst atlögunni sem hryðjuverkaárás drifinni áfram af gyðingahatri. Með yfirlýsingu Albanese er í fyrsta sinn opinberlega velt upp þeim möguleika að feðgarnir hafi ánetjast öfgahyggju í aðdraganda árásarinnar. Albanese sagði hugmyndafræði sem lengi hefði lifað hafi kveikt hatur og í þetta sinn gert tvo menn reiðubúna til að fremja fjöldamorð. Forsætisráðherrann rifjaði upp að sonurinn Naveed hefði verið undir smásjá leyniþjónustunnar fyrir sex árum. Þá hefði hann átt í samskiptum við menn sem tengdust hryðjuverkasamtökunum, en ekki verið talinn öryggisógn sjálfur. Tveir þeirra sem sonurinn tengdist hafi síðar verið ákærðir og fangelsaðir. Feðgarnir létu byssukúlum rigna yfir gesti Bondi-strandarinnar í tíu mínútur áður en lögreglumenn skutu föðurinn Sajid til bana. Naveed var handtekinn og liggur í dái á sjúkrahúsi undir vökulu auga lögreglumanna.