Trump krefur BBC um tíu milljarða dala bætur

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að BBC verði krafið um samtals tíu milljarða dala bætur fyrir að leggja honum orð í munn með misvísandi klippingu á ræðu sem hann hélt þegar stuðningsfólk hans réðist á þinghúsið í Washington. Trump sagði á blaðamannafundi að innan skamms höfðaði hann mál á hendur BBC sem hefði lagt honum orð í munn, orð sem hann hefði aldrei sagt. Hann kvaðst telja BBC hafa notað gervigreind við það. Hins vegar hefðu fögur orð sem hann lét falla um föðurlandsást og fleira ekki verið birt. Reuters segist hafa séð málshöfðunarskjölin og að krafa Trumps nemi alls tíu milljörðum dala. Málið verður flutt fyrir héraðsdómi á Flórída. Fjárkrafa Trumps í garð BBC er vegna misvísandi klippingar sem birtist í heimildaþættinum Panorama af upptöku á ræðu sem hann hélt fyrir árás stuðningsfólks hans á þinghúsið 6. janúar 2021. Þátturinn var sýndur í október 2024 og þar var myndband klippt þannig að Trump virtist annars vegar hvetja stuðningsmenn sína til að ganga fylktu liði að þinghúsinu og hins vegar að berjast sér við hlið. Trump krefst fimm milljarða fyrir hvort brot. Útvarpsstjórinn Tim Davie og fréttastjórinn Deborah Turness sögðu af sér vegna málsins. Stofnunin og Samir Shah stjórnarformaður hennar báðu Trump afsökunar í nóvember en sögðu enga ástæðu til að greiða honum bætur. Varnir yrðu hafðar uppi höfðaði Trump mál.