Forsetinn náðar sagnfræðing sem efaðist um tilvist frumbyggjamenningar landsins

Abdelmadjid Tebboune Alsírforseti hefur gefið út tilskipun til náðunar sagnfræðingsins og háskólaprófessorsins Mohamed Amine Belghit, sem var fangelsaður fyrir að efast um tilvist frumbyggjamenningar Alsír, Amazigh-þjóðarinnar. Hann sagði í sjónvarpsviðtali að tungumál þjóðarinnar væri hugmyndafræðilegur tilbúningur Frakka og gyðinga og að menning þeirra væri í raun réttri ekki til. Amazigh-þjóðin er oft kölluð Berbar og á heimkynni víðs vegar um Norður-Afríku og rekur rætur aftur fyrir landvinninga Araba á 7. öld. Belghit var dæmdur til fimm ára fangavistar í júlí sem áfrýjunardómstóll lækkaði niður í þrjú ár í október, þar af tvö ár skilorðsbundið. Prófessorinn var upphaflega handtekinn í maí og ákærður fyrir að grafa undan einingu þjóðarinnar, fyrir hatursorðræðu og fyrir móðgun við þjóðareinkenni Alsír. Ummæli Belghits hafa iðulega vakið mikla reiði og gagnrýnendur segja hann altekinn af sögulegri endurskoðunarhyggju og andúð í garð Amazigh-þjóðarinnar. Tungumál hennar Tamazight var gert að einu af opinberum tungumálum Alsír árið 2016 og árið eftir var ákveðið að áramótafögnuður þjóðarinnar, Yennayer yrði opinber hátíðardagur.