Evrópusambandið gæti hætt við bann við framleiðslu sprengihreyfla fyrir árið 2035

Útlit er fyrir að Evrópusambandið hyggist hætta við bann á sölu nýrra jarðefniseldseytisbíla sem boðað var að tæki gildi eftir tíu ár. Bílaframleiðendur í álfunni hafa lagt þunga áherslu á endurskoðun. Málið verður rætt í dag sem hluti leiða til að styðja við bílaiðnaðinn í Evrópu sem á í harðri glímu við kínverska bílaframleiðendur. Rafmagn knýr rétt rúm sextán prósent allra nýrra bíla sem keyptir voru innan ríkja sambandsins fyrstu níu mánuði ársins, samkvæmt tölum Samtaka evrópskra bílaframleiðenda (ACEA). Hár framleiðslukostnaður raf- og tengiltvinnbíla hefur áhrif á afkomu framleiðenda auk þess sem uppbygging innviða fyrir rafbíla þykir hafa gengið hægar í nokkrum ríkjum þess en áætlað var. Bílaframleiðendur og samtök þeirra hafa lagt hart að Evrópusambandinu að endurskoða áætlanir sínar, þær séu ekki lengur raunhæfar, og nú er búist við að framkvæmdastjórnin leggi til að á næsta áratug skuli framleiðendur minnka útblástur bíla sinna um 90 af hundraði. Þýskir bílaframleiðendur vilja að áfram verði heimilað að framleiða blendingsbíla eða bíla með jarðefnaeldsneytisvél sem hleður rafhlöðuna en knýr farartækið ekki áfram. Ítalskir framleiðendur hafa áhuga á frekari þróun véla sem ganga fyrir jurtaolíu eða efnum unnum úr úrgangi en Frakkar, Spánverjar og Norðurlöndin leggja meiri áherslu á fyrri áætlun til að skaða ekki þá framleiðendur sem hafa fjárfest mikið í framleiðslu rafbíla.