Varað við hríð frá hádegi á morgun til fimmtudagsmorguns

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna norðaustanhríðar á Vestfjörðum og Ströndum. Veðrið skellur á um hádegisbil á morgun og gengur ekki niður fyrr en á fimmtudagsmorgun. Veðurstofan spáir 15 til 23 metrum á sekúndu með snjókomu og skafrenningi á Vestfjörðum og 15 til 20 metrum með snjókomu og skafrenningi á norðanverðum Ströndum. Á Vestfjörðum verður sums staðar enn hvassara í vindstrengjum. Veðurstofan varar við lélegu skyggni og segir að búast megi við afmörkuðum samgöngutruflunum. Fólk sem hyggur á ferðalög er því hvatt til að vera varkárt.