Kaþólikkum og Wat Phra búddistum fjölgaði mest

Þjóðkirkjan er fjölmennasta trúfélag landsins og Kaþólska kirkjan það næst fjölmennasta. Þetta kemur fram í samantekt Þjóðskrár . Skipting landsmanna eftir trúfélögum og lífsskoðunarfélögum er gerð upp 1. desember ár hvert og ræðst greiðsla sóknargjalda af skráningu fólks á þeim tíma. 224.056 voru skráðir í þjóðkirkjuna 1. desember. Það eru 54,5 prósent landsmanna. Til samanburðar voru 65,2 prósent skráð í þjóðkirkjuna 1. desember 2019. Sóknarbörnum Kaþólsku kirkjunnar fjölgaði um 369 frá 1. desember í fyrra til 1. desember í ár, eða um rúmlega eitt á dag. Hlutfallslega var fjölgunin þó mest í Wat Phra búddistasamtökunum, 25 prósent, og eru nú 204 skráð í samtökin. 30.931 er skráður utan trú- og lífsskoðunarfélaga og er það fólk sem hefur tekið ákvörðun um að standa utan þeirra. 94.646 eru með ótilgreinda skráningu. Það er fólk sem hefur ekki tekið afstöðu til skráningar í slík félög.