Súðvíkingar eru ekki á einu máli um framhaldið eftir að rannsóknarnefnd skilaði skýrslu sinni um aðdraganda og viðbrögð við snjóflóðinu mannskæða sem rann yfir þorpið 16. janúar 1995. Þetta sögðu þær Maya Hrafnhildardóttir, sem missti sem missti móður sína og fósturföður í flóðinu, og Sigríður Rannveig Jónsdóttir, sem missti dóttur sína eins og hálfs árs, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þær hafa verið meðal þeirra sem hafa þrýst á um uppgjör á málunum síðustu áratugi. Konur sem hafa barist fyrir því að snjóflóðið á Súðaviík verði rannsakað segja ljóst að mannréttindi Súðvíkinga hafi verið brotin. Enginn hafi verið látinn vita af yfirvofandi hættu. Þær eru ánægðar með nýja skýrslu en málinu sé ekki lokið. Maya sagðist ánægð með skýrsluna, með það sem þar kom fram, eftir að hafa verið með kvíðahnút í maganum í aðdraganda birtingarinnar, eftir 30 ára baráttu. Hún hafi hins vegar orðið fyrir vonbrigðum með ummæli viðmælenda í Kastljósi um að enginn hefði getað séð hörmungarnar fyrir. „Ég bara fór að gráta. Það var eins og engan hefði órað fyrir þessu… Hvað ertu að tala um?“ Þær segja gögnin sýna að hættan hafi verið ljós. En enginn hafi verið látinn vita. Jafnvel fólk eins og Maya og foreldrar hennar sem höfðu byggt sér hús við Nesveg. „Það voru komin gögn hálfu ári áður en við byrjuðum að byggja, um að það mætti ekki flytja inn í húsin áður en það kæmu varnir. Þetta var vitað í öll þessi ár.” Svo hafi húsin verið komin á hættusvæði. Það hafi ítrekað verið að biðja bæjaryfirvöld í Súðavík um að setja upp varnir, en íbúar hafi ekki verið látnir vita. Þá sárnaði henni að annar viðmælandinn í Kastljósi hafi sagt að Súðvíkingar myndu varla fara yfir skýrsluna. Það sé vanvirðing fyrir þau sem hafi misst fólk í flóðinu. Gegnumgangandi hjá Mayu og Sigríði er að íbúar hafi treyst á að yfirvöld myndu láta vita ef hætta væri á ferðum. Eftir flóðið sem féll á Súðavík í desember 1994, skömmu fyrir hörmungarnar, hafi fólk verið á varðbergi. Svo þegar veðurspár hafi gert ráð fyrir verstu vindátt sem hugsast getur varðandi snjóflóð hafi fólk á hættusvæði samt ekki verið látið vita „Þetta kom fram í skýrslunni og það er gott að fá upp á yfirborðið því að við höfum vitað þetta í 30 ár,” sagði Sigríður. Treystu á yfirvöld Í gegnum skýrsluna má lesa að nokkur pólítík hafi verið í málunum. Maya segir að enn eimi eftir af því. Hún hafi fundið fyrir tregðu í viðleitni sinni til að grafa upp frekari upplýsingar. „Mér finnst bara leiðinlegt að fólk skuli ekki geta sett sig í okkar spor.” Sigríður segir að íbúar, þar á meðal tengdaforeldrar hennar, foreldrar Mayu, hafi treyst á yfirvöld. Að þau hafi treyst því að þau yrðu látin vita ef hætta væri á ferðum. Eftir flóðið í desember 1994 hafi fólk verið á varðbergi. Svo þegar veðurspár hafi gert ráð fyrir verstu vindátt sem hugsast getur varðandi snjóflóð hafi fólk á hættusvæði samt ekki verið látið vita. „Þetta kom fram í skýrslunni og það er gott að fá þetta upp á yfirborðið því að við höfum vitað þetta í 30 ár.” Snerist um peninga „Frá mínum bæjardyrum séð snerist þetta um peninga,“ segir Maya. “Það voru ekki til peningar til að byggja upp snjóflóðavarnir. Þessu var bara sópað undir. Það er ekki hægt að segja: Þetta var tíðarandinn! - Nei. Það var verið að reka á eftir Súðavíkurhreppi að byggja þessar varnir.” Svo hafi verið mikil tregða til að bregðast við fyrir vestan. „Þau vissu af hættunni daginn áður. Meðan enginn af okkur vissi af hættunni. Það lét okkur enginn vita. Þegar þau voru að ræða hættu sín á milli vorum við bara heima að hugsa hvort það væri hætta eða ekki hætta.” Sigríður segir það mannréttindabrot að hafa ekki heyrt af þessu. Báðar segja þær mikinn létti að allt sé loks uppi á borðum. „Nú má segja þetta,“ segir Sigríður. „Ég finn í líkamanum að það má segja að þetta voru mannréttindabrot gagnvart fólkinu að láta ekki vita um hættu sem fólk í Reykjavík var að tala um og hringja í Súðavík og lögregluna. Það voru allir að tala um hættuna en enginn látinn vita.” Það sé ekki hægt að segja að svona hafi tíðarandinn verið. „Fólki var ekki gefið val um að sofa í húsinu eða fara úr húsinu. Við höfðum ekki val. Það var fólk þarna úti sem vissi að við vorum í hættu. Öll þessi börn voru í hættu og enginn var látinn vita. Það var alvarleiki málsins.” „Kerfið brást fólkinu og það verður bara að viðurkenna það.” Í grunninn séu þær þó þakklátar stjórnvöldum fyrir að hafa hlustað á kröfur þeirra og lagt í þessa rannsókn. Málinu sé ekki lokið og það eigi eftir að fara sína leið.