Dómur verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í dag í Súlunesmálinu svokallaða. Margrét Halla Hansdóttir Löf er ákærð fyrir að verða föður sínum að bana og fyrir tilraun til að bana móður sinni á heimili þeirra í Súlunesi í Garðabæ í apríl. Atlaga Margrétar að foreldrum sínum hófst samkvæmt ákærunni um klukkan hálf ellefu að kvöldi 10. apríl og stóð fyrir til klukkan ríflega hálf sjö morguninn eftir. Samkvæmt ákærunni beitti Margrét föður sinn margþættu og alvarlegu ofbeldi í aðdraganda andláts hans þann 11. apríl og svipti hann þannig lífi með höggum, spörkum og öðrum brögðum. Hún hafi veist með ofbeldi að höfði hans, búk og útlimum, þannig að hann hlaut fjölmarga áverka, svo sem fjölda rifbeinsbrota, blæðingu í lungnavef og blæðingu í lifrarvef. Í ákærunni segir að faðir Margrétar hafi verið á flótta út af heimilinu þegar hann örmagnaðist og féll niður í forstofu hússins og lést stuttu síðar af völdum áverkanna. Margrét átti afmæli 10. apríl, en faðir hennar átti 80 ára afmæli 11. apríl, daginn sem hann lést. Öskraði á foreldra sína í tíu klukkustundir og bannaði þeim að yrða á sig Margrét er einnig ákærð fyrir að beita föður sinn og móður ítrekað alvarlegu ofbeldi á ríflega fjögurra mánaða tímabili. Aðfaranótt laugardagsins 30. nóvember 2024 hafi hún í um tíu klukkustundir öskrað á foreldra sína, skipað þeim að standa og sitja að hennar ósk og bannað þeim að yrða á sig. Þá nótt hafi hún einnig beitt móður sína líkamlegu ofbeldi. Í byrjun febrúar á þessu ári hafi Margrét veist með líkamlegu ofbeldi að föður sínum og slegið hann í höfuð og í hægra eyra, meðal annars með þeim afleiðingum að hann hlaut blæðingar í eyra, svokallað blómkálseyra, sem hann þurfti ítrekað að leita sér læknisaðstoðar vegna. Í mars hafi Margrét svo ráðist á föður sinn og slegið hann í andlit og í vinstra eyra, þannig að hann hlaut blæðingar og afmyndun á vinstra eyranu líka. Þá hafi Margrét ítrekað veist að föður sínum í mars og í apríl, meðal annars með því að slá hann í framan og slá eða sparka í búk hans, með þeim afleiðingum að hann var lagður inn á spítala, einungis um fimm dögum fyrir andlátið. Margrét er einnig ákærð fyrir að veita móður sinni fjölmarga áverka. Þannig hafi hún veist með líkamlegu ofbeldi að móður sinni í febrúar og í mars á þessu ári og meðal annars slegið hana í andlit og í vinstra eyra þannig að hún hlaut blæðingar í eyra, eða blómkálseyra, og þurfti ítrekað að leita læknisaðstoðar vegna þess. Margrét er einnig ákærð fyrir að beita móður sína alvarlegu ofbeldi og reynt að svipta hana lífi nóttina sem hún varð föður sínum að bana. Hún hafi veist að móður sinni með endurteknum hnefahöggum og spörkum í höfuð, andlit og búk og útlimi, þannig að hún nefbrotnaði, fékk punktablæðingu á auga, fimm sentimetra skurð á vinstra eyra, bólgumyndun á hægra eyra (blómkálseyra), auk fleiri áverka. Þinghald var lokað að beiðni sakbornings og móður hennar, sem er brotaþoli. Fram kom í umfjöllun Heimildarinnar í nóvember að móðir Margrétar hafi kosið að tjá sig ekki fyrir dómi. Nokkur fjöldi vitna hafi verið kallaður til á þeim fjórum dögum sem málsmeðferðin fór fram. Þar hafi meðal annars komið fram að Margrét hafi verið viðkvæm fyrir hljóðum og haldin svokallaðri hljóðóbeit, sem helst beindist að foreldrum hennar. Þeir hafi mátt þola að búa við algjöra þögn og bréfaskriftir á heimilinu að kröfu Margrétar.