„Það er enginn matsölustaður í þorpinu, enginn bar, ekkert kaffihús. Næsti svoleiðis veitingastaður er á Íslandi en þangað er 500 kílómetra vegalengd yfir hrollkaldan sjó," segir í grein sem bandaríska tímaritið New Yorker birti í prentútgáfu sinni í byrjun desember. Greinin í The New Yorker fjallar öðrum þræði um grænlenskan ísbjarnarveiðimann, Hjelmer Hammaken, sem býr í þorpi á Austur-Grænlandi sem heitir Ittoqortoormiit. Þú getur eiginlega ekki logið í þessu blaði Ragnar Axelsson ljósmyndari hefur þekkt Hjelmer í að verða fjóra áratugi og hefur tekið af honum margar ljósmyndir. Hann tekur myndirnar tvær í grein New Yorker sem er hluti af útgáfu í tímaritsins í tilefni af 100 ára afmæli þess. Ragnar var eins konar leiðsögumaður fyrir bandaríska blaðið á Grænlandi og kynnti blaðamanns þess meðal annars fyrir Hjelmer. „Ég þurfti að opna fyrir hann [blaðamanninn] að honum og kannski þorpinu öllu," segir Ragnar. Þegar Ragnar byrjaði að fjalla um Hjelmer voru á milli 50 til 60 veiðimenn í þorpinu sem veiddu ísbirni, seli og hvali. Nú eru þeir bara 10. Fjallað er um greinina í New Yorker og vinnu Ragnars Axelssonar við hana í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag. Þáttinn má hlusta á hér: Ragnar Axelsson ljósmyndari tekur myndirnar í grein um þorp á Grænlandi sem birt er í bandaríska tímaritinu New Yorker nú í desember. Hann lýsir hinu harða lífi í þorpinu og vinnunni á bak við greinina. Tragísk grein segir Ragnar Ragnar lýsir því í greininni að blaðamaður tímaritsins fjalli um hversu hart lífið í þorpinu er. Hann fjalli meðal annars um félagsleg vandamál og segi sögur um alkóhólisma og brotin heimili. Hann segir því að greinin sé nokkuð tragísk. „Að fá að kynnast þessu lífi, þetta er alveg ótrúlega hart líf, það er kalt, 35 til 40 stiga frost. Þetta er ekki auðvelt og það er erfitt að mynda þetta. Það er áskorun. En það þarf að gera það, það þarf mynda þetta, dokumentera þetta finnst mér, " segir Ragnar. Hrátt rósakál Í greininni eru fjölmargar eftirminnilegar glefsur. Ein þeirra snýst meðal annars um það að birgðaskipið frá Danmörku komi bara tvisvar á ári í þorpið. Ferskt grænmeti og ávextir sjáist því sjaldan. Í greininni er eftirfarandi lýsing á þessu: „Veiðimennirnir sjá þorpinu fyrir kjöti. Annað ferskt kjöt er ekki á boðstólnum. Stundum gerist það á sumrin að skemmtiferðarskip koma með ferska ávexti og grænmeti í þorpið. Þetta er er sjaldgæfur lúxus sem sumir hafa jafnvel ekki séð áður. Eftir eina slíka heimsókn seint í júlí sá ég lítil börn tyggja hrátt rósakál eins og það væri epli. Birgðaskipið frá Danmörku hafði þá ekki komið í þorpið frá því október." Spurningar frá staðreyndadeildinni Eitt af því sem einkennir greinarnar í New Yorker er að allar greinar eru staðreyndatékkaðar í stífu ferli. 30 manna deild vinnur við að sannreyna staðreyndir og hringja í viðmælendur til að athuga staðhæfingar þeirra. Þetta er eitt af einkennum tímaritsins. Ragnar segir um þetta: „Maður var bara í þriðju gráðu yfirheyrslu yfir því sem maður sagði og yfir því sem veiðimennirnir höfðu sagt. [...] Þú getur eiginlega ekki logið í þessu blaði [...] Það var hringt í mig þrisvar," segir ljósmyndarinn sem fékk þakkarbréf frá ritstjóra New Yorker, David Remnick, fyrir aðstoðina á Grænlandi.