Kveðja síðustu pöndurnar

Búist er við stóraukinni aðsókn í dýragarðinn í Ueno-hverfi í Tókýó á næstu dögum því það fara að verða síðustu forvöð til að sjá pöndurnar Xiao Xiao og Lei Lei sem verða sendar til Kína í janúar. Borgaryfirvöld í Tókýó tilkynntu í gær að pöndurnar verði sendar til Kína og að ekki væri útlit fyrir að aðrar kæmu í þeirra stað í bráð. Pöndurnar tvær eru þær síðustu í dýragörðum Japans. Lán á pöndum tákn um vináttu ríkja Kína hefur afhent nokkrum ríkjum heims pöndur að láni sem tákn um vináttu. Fyrstu pöndurnar sendu kínversk stjórnvöld til Japans 1972 og síðan þá hafa alltaf verið pöndur í Japan. Borgaryfirvöld í Tókýó hafa óskað eftir því að fá aðrar pöndur sendar í stað þessara tveggja en hafa ekki fengið svar frá kínverskum yfirvöldum. Tvíburapöndurnar Xiao Xiao og Lei Lei eru síðustu risapöndurnar sem eftir eru í Japan. Þær eru þó á förum til Kína í byrjun næsta árs, í skugga versnandi samskipta ríkjanna. Búist er við mikilli örtröð við dýragarðinn í Ueno, þar sem þær dvelja. Hinn 67 ára gamli Minoru Sawada beið í tvo klukkutíma í röð eftir að fá að sjá pöndurnar í dag. Hann hafði ekki komið í garðinn í mörg ár, eða síðan börnin hans voru ung. Einn gestur dýragarðsins, líkt og margir aðrir, setur brottför pandanna í samhengi við versnandi samband við Kína. „Sé litið til sambandsins við Kína í dag þá er alveg óljóst hvort það fáist fleiri pöndur að láni, jafnvel þó að Japan bæði um það,“ hefur fjölmiðillinn The Japan Times eftir gestinum. Nýr forsætisráðherra Japans, Sanae Takaichi, sagði í byrjun mánaðarins að til greina kæmi að Japan skærist í leikinn með hervaldi ef Kína myndi ráðast á Taívan. Kína er einu náttúrulegu heimkynni risapöndunnar. Pöndurnar Xiao Xiao og Lei Lei fæddust í Tókýó 2021. Samningur ríkjanna kveður á um að stjórnvöld í Kína eigi öll afkvæmi þeirra panda sem þau afhenda erlendum ríkjum. Búast við að margir kveðji pöndurnar Sérstök áætlun er í gildi næstu daga í dýragarðinum í Ueno því búist er við fjöldanum öllum af gestum sem vilja kveðja pöndurnar. Eftir næsta sunnudag þarf að panta miða í dýragarðinn fyrir fram og verður 4.800 gestum hleypt inn á dag. Milli 14. og 25. janúar verður nokkurs konar lottó, þar sem nöfn verða dregin úr potti og þeir heppnu fá að heimsækja dýragarðinn. Þá hefur verslun dýragarðsins pantað aukabirgðir af munum með myndum af pöndunum, svo sem stuttermabolum og bollum. Pöndurnar tvær eru þær síðustu í Japan. Ein panda sem var í dýragarði í borginni Kobe drapst í mars 2024. Þá voru fjórar úr skemmtigarði í Wakayama-héraði sendar til Kína í júní.