Nýtt fyrirtæki undir merkjum Nice Air hyggst hefja sig til flugs í febrúar. Þá eru áætlaðar tvær ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar og hefst miðasala í þær ferðir á morgun. Forstjórinn ætlar að fara hægt af stað og segist skilja vel að margir hafi efasemdir. „Við viljum vaxa jafnt og þétt og hafa trausta starfsemi. Það er Nice Air 2,0“, sagði Martin Michael, forstjóri nýja Nice Air, eftir blaðamannafund í flugsafninu á Akureyri í dag. Nýtt fyrirtæki væri fjármagnað af eigin fé, sem kæmi úr fjölskyldurekstrinum Whiteskarkgroup. Að eigin sögn hefði Michael áratuga reynslu af ferðaþjónustu og flugrekstri. Þau hafi þó ekki áður reynt flugrekstur með nákvæmlega þessu fyrirkomulagi. Starfsemin verður að sögn nýs eiganda ólík gamla Nice Air að mörgu leyti. Þau ætla sér ekki að festa leigu á flugvélum og merkja þær Nice Air að nýju, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn, heldur segist nýr eigandi ætla að leigja vélarnar af erlendum samstarfsaðilum. Ætlunin sé að ná þannig auknum sveigjanleika í rekstrinum - geta aðlagað stærð flugvélanna og starfsemina að eftirspurn og áfangastöðum og sitja ekki uppi með hálftómar vélar. Hann sagði áhuga innlendra fjölmiðla hafa verið meiri en hann hefði átt von á. Það væru greinilega talsvert miklar tilfinningar tengdar vörumerkinu og hann skildi að fólk hefði efasemdir. „Ég skil algerlega að það séu efasemdir, þess vegna er ég hér og vil svara öllum ykkar spurningum og endurbyggja traust. Þess vegna verður starfsemin mjög takmörkuð frá Akureyri í byrjun. Það er ekki skynsamlegt að lofa flugi tvisvar í viku allt árið til Kaupmannahafnar og sitja svo uppi með 30-40% nýtingu. Þannig brennum við peninga.“ Hann segist þó fullviss um að endurreisn vörumerkisins verði þess virði. „Vörumerkið og nafnið er bara fullkomið. Það er jákvætt, skilst um allan heim, Evrópu, Bandaríkjunum, hvar sem er. Og allir elska Íslendingana“, segir Michael. Áhersla verði lögð á að hafa flugferðirnar „næs“ og gæðin verði sett framar fjölda ferða. Vill Nice Air á flug um Evrópu Fyrir flugið til Kaupmannahafnar í febrúar hefur fyrirtækið samið við danska leiguflugfélagið Air Seven, en eftir það er framhaldið nokkuð óráðið. Forstjóri segir þó standa til að kynna sumaráætlun fljótlega og markmiðið sé að fljúga frá Akureyri til Kaupmannahafnar tvisvar í viku allan ársins hring. Miðaverðið til Kaupmannahafnar sem kynnt var í dag voru 400 evrur, eða um 60 þúsund íslenskar krónur. Það var þó kynnt með fyrirvara um hækkanir þegar fram liði, eins og venjan væri í flugbransanum. Nýja Nice Air mun ekki einskorða sig við millilandaflug til Akureyrar, heldur vilja þýskir eigendur að nýtt fyrirtæki fljúgi einnig innan meginlands Evrópu, þá aðallega frá Þýskalandi.