Atkvæðagreiðlu um tekjuhluta fjárlaganna, bandorminn svokallaða, lauk á sjötta tímanum í dag. Stjórnarandstæðingar höfðu margt að segja um frumvarpið enda stóð umræðan um frumvarpið yfir í tæpar 18 klukkustundir. Sé litið tíu þing aftur í tímann er þetta langlengsta bandormsumræðan. Alla jafna hafa umræðurnar í annarri umferð staðið yfir í eina og hálfa til þjrár klukkustundir en árið 2023 náði hún fjórum klukkustundum. Umræðan á þessu þingi stóð hins vegar yfir í rétt tæpar 18 klukkustundir, sem er meira en allar umræður til samans frá árinu 2018. Er þá tíminn sem fór í atkvæðagreiðslur ekki tekinn með en hún stóð yfir í vel á fjórðu klukkustund. Stærstur hluti umræðunnar fór í að ræða fyrirhugaðar breytingar á vörugjöldum á ökutæki en einnig voru afnám samsköttunar hjóna og krónutöluhækkanir um áramót, sem verða 3,7 prósent og taka mið af verðbólgu, gagnrýndar. Þó var breið samstaða um að lækka innviðagjald á skemmtiferðaskip úr 2.500 krónum í 1.600. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði stjórnarandstöðuna hafa talað í efsta stigi alla umræðuna, en furðaði sig mest á því að þeir flokkar sem voru í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili kannist ekki við eigin verk. Þannig hafi breytingar á vörugjöldum og kílómetragjald verið í vinnslu í fjármálaráðuneytinu í áratugi. „Og nú vitum við það bara að það er eitt að vera í minni hluta og annað að vera í meiri hluta því fólk getur ekki haldið ábyrgð sinni eftir að það missir völdin.“ Þingmenn meirhlutans sáu til þess að frumvarpið var samþykkt og fer málið til efnahags- og viðskiptanefndar fyrir þriðju og síðustu umræðu.