Dómsmálaráðherra segir að það sé þjóðarinnar að melta niðurstöður skýrslu um snjóflóðið í Súðavík. Aldrei sé hægt að útskýra allt í slíkum aðstæðum. Skýrslan um snjóflóðið í Súðavík var löngu tímabær að mati dómsmálaráðherra sem segir það hafa skilið eftir sig sár sem aldrei grói. Óvíst er um framhaldið og hvort greiddar verði bætur. Í byrjun árs var tilkynnt um skipan rannsóknarnefndar Alþingis um snjóflóðið í Súðavík í janúar 1995 og í gær leit skýrsla hennar dagsins ljós - rúmum 30 árum eftir flóðið. „Ég held að það leiki enginn vafi á því að þetta hefði mátt gerast fyrr. En það breytir ekki því að þarna hefur þarft uppgjör farið fram,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, en undir ráðuneytið heyra almannavarnir. „Við vitum það öll sem Íslendingar að hér er sár sem grær ekki.“ Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er ágreiningur innan almannavarnanefndar Súðavíkur í aðdraganda flóðsins um hvort staðið hefði til að halda fund nóttina áður en flóðið féll og hver hefði átt að boða hann. „Auðvitað hefur þetta verið eitt þeirra atriða sem alltaf hefur verið kallað eftir og hvað var að gerast þarna á undan,“ segir ráðherra. „En ég treysti mér ekki til að fella einhvern dóm um það, umfram það sem kemur fram í skýrslunni.“ Er búið að útskýra allt sem hægt er að útskýra með þessari skýrslu? „Ég held að það sé, í svona máli, aldrei hægt.“ Þjóðarinnar að melta niðurstöðuna Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekur skýrsluna til umfjöllunar eftir áramót. Almenningur getur þá sent umsagnir um hana og svo verður hún til umræðu á Alþingi. „Ég lít þannig á að hér hafi farið fram ákveðið uppgjör og það sé núna þjóðarinnar allrar að melta þessar niðurstöður,“ segir Þorbjörg Sigríður. En hvernig sérðu fyrir þér framhaldið? Að einhverjir fái bætur eða annað slíkt? „Ég ætla að byrja á að skoða skýrsluna , ég held að sá þáttur hafi ekki verið skoðaður og ég hef alltaf upplifað ákall aðstandenda og fólksins í Súðavík með þeim hætti að þau vildu fá skoðun á því sem gerðist.“