Móðurást – Sólmánuður: Gæti orðið grundvallarrit íslenskra skáldbókmennta

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar: Móðurást: Sólmánuður er þriðja bindið í bókaflokki þar sem Kristín Ómarsdóttir spinnur dásemdar skáldskap í kringum ævi langömmu sinnar í móðurætt, Oddnýjar Þuríðar og Þorleifsdóttur sem fædd var árið 1863 í Bræðratungu í Biskupstungum. Fyrir fyrstu bókina, Móðurást: Oddný fékk Kristín Fjöruverðlaunin og önnur bókin Móðurást: Draumþing hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra. Allar eru bækurnar svipaðar að gerð, hvað varðar byggingu og stíl. Hver og ein þeirra segir af stuttu tímabili í lífi Oddnýjar, sem er sögumaður bókanna, og frásögninni vindur áfram í stuttum köflum og brotum sem eiga uppruna í því sem Oddný upplifir, sér, lýsir og hugsar. Grípa má til líkingar við mósaíkmynd til að lýsa frásagnaraðferðinni. Ytri sögutími hverrar bókar er stuttur, nokkurs konar sneiðmynd úr lífi Oddnýjar, en innri tími verksins er laus í reipunum og fljótandi og lesandi fær í gegnum hugsanir Oddnýjar endurlit til fortíðar sem og sýn til framtíðar – undir liggja öll þau 90 ár sem hún lifði. Tveir meginþræðir mynda uppistöðu bókanna; annars vegar er það lífsferill aðalpersónunnar og hins vegar þær stórstígu þjóðfélagsbreytingar sem áttu sér stað á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar og kenndar eru við nútímavæðingu. Fyrsta bókin gerist á þorra árið 1872 þegar Oddný er á níunda ári en bæði önnur bókin og sú þriðja og nýjasta gerast um sumarið 1878 þegar hún er 15 ára og nýfermd. Komið hefur fram að fjórða bókin mun einnig fjalla um atburði þessa sólmánaðar en samkvæmt fornu tímatali er sólmánuður þriðji sumarmánuðurinn og hefst í kringum sumarsólstöður og Jónsmessu, sem er forn sólstöðuhátíð. Titill annarrar bókarinnar, Draumþing , vísar einmitt til slíkrar hátíðar sem Oddný, móðir hennar, systir og frænkur tóku þátt í og lýst var svo eftirminnilega í þeirri bók. Þeirri hátíð lauk með því að Oddný kyssti álf – eða kannski bara rauðhærða stelpu úr Tungunum. Sumarið 1878 er mikilvægt tímabil í lífi Oddnýjar, hún lifir á tímamótum, ekki bara samfélagslegum heldur er hún sjálf að breytast úr barni í konu. Hún er í þeim millitíma sem Laxness kallaði, í einni af sínum endurminningabókum, staðinn á milli „heys og grasa sem hvorki er vetur né sumar“ ( Grikklandsárið ). Í Móðurást: Draumþing er einmitt kafli – eða kannski ljóð – sem hefur yfirskriftina „Milli“ og hljóðar svona: Milli Jarðar og himins … Vergangs og gististaðar … Draugasögu og vöku .. Veturs, sumars … Doða, tilfinningar … Skynsemi, hvatar og þriðju systur þeirra skynsemi og hvatar sem aldrei var skírð … … reis eða faldi sig Millistaður (millipils), Eyja, vegskil, ferja úr ósýnilegu timbri. (15) Þetta er millistaðurinn þar sem Oddný dvelur og hún er að reyna að átta sig á hvar hún er – hver hún er, enda segir í framhaldinu að þetta sé varla staður þótt hún hafi snert hann áþreifanlega þetta sumar sem hún nýfermd fyllti 15. árið. Móðurást: Sólmánuður hefst á frásögn af því þegar systir Oddnýjar, Setselja sem er ári yngri en hún er að lýsa löngun sinni til að fá að vera smali þetta sumar – hún vill klæðast buxum og fá tíma til að lesa bækur á meðan hún situr yfir ánum úti í haga. En hlutverk smalans er ætlað bróður þeirra, Magnúsi, og þótt Setselja sé dugleg og fjörug og geri „allt hratt nema sofa“ fær hún hér engu ráðið, hún á að sinna kvennastörfum og kindunum ásamt Oddnýju, þetta sumar eru þær mjaltapíur og það er pabbi þeirra sem ræður þessu – eins og öðru sem hann vill ráða á heimilinu. Og þegar honum ofbýður fyrirgangurinn í Setselju dregur hann hana eftir gólfinu og skipar henni í pils. Móður þeirra líkar þetta ekki og tuldrar lágt dóttur sinni til varnar: „Hún á eftir að læra, rétt ókonfirmeruð“ því það „stríddi gegn skapsmunum hennar að verða vitni að órétti án mótmæla“ (11). Þetta atvik, þar sem föðurvaldið birtist svo ljóslega er gegnum-gangandi þema í bókunum um Oddnýju og kallast sérstaklega á við atvik í fyrstu bókinni, þar sem valdbeiting föðurins gagnvart elsta syni sínum og konu sinni veldur öllum sem verða vitni að því áfalli. En það eru systurnar tvær, Oddný og Setselja sem eru aðalpersónur bókarinnar. Þær hrærast báðar í þessu millirými sem vandasamt er að fóta sig í. Það er aðeins eitt ár á milli þeirra í aldri en þær eru mjög ólíkir persónuleikar. Setselja er sterk, kröftug, snör í snúningum og lestrarhestur mikill. Enginn stendur henni á sporði í hestamennsku og hún vílar ekki fyrir sér að sundríða fljót, ef nauðsyn krefur. Oddný er hins vegar róleg og íhugul og vitund hennar virðist dvelja á milli draums og veruleika; hún hefur sýn listamanns á lífið og náttúruna og miðlar þeirri sýn til lesenda oft á draumkenndan hátt. Höfundur vísar oft til ilja hennar, hvernig þær snerta jörðina – eða ekki – hvernig iljarnar leika við moldina, grasið, vatnið. Kannski má lesa í þær lýsingar eitthvað um tengingu Oddnýjar við heiminn. En þó systurnar Oddný og Setselja séu ólíkar eru þær sammála um að þær ætla sér ekki það hlutskipti að verða maddömmur. Í þeirra huga er maddamma: … kona með þóttafullt yfirbragð, sem ríður í kvensöðli, klæðist nýsaumuðu, á eigin reiðtygi, vitnar í guð, skipar fyrir, veit allt, lætur eins og allt sé gott, að öll ósköpin endi átómatískt með vellystingum og góðverkum, himinninn ausi gjöfum niður á jörðina, grimmlynd kringum augun … (16) Á þessum tímamótum í lífinu er kvenhlutverkið Oddnýju hugleikið og hún spyr Þuríði móður sína þegar þær sitja saman úti í fjósi að mjólka: „Hvenær verður kona að konu, mamma?“ Þótt Þuríði vefjist fyrst tunga um tönn, segir hún að lokum að nokkur tímamót hafi gert sig að konu (tilvitnun): „Þegar ég fermdist, þegar ég var í fyrsta skipti snert, þegar ég fór að hafa á klæðum, þegar mamma mín dó, þegar ég eignaðist þig“ (33). Sjálf veltir Oddný því nokkrum sinnum fyrir sér hvort hún verði að tileinka sér „svikaeðli“ til að passa inn í þetta hlutverk. Og sú hugsun tengist oftar en ekki álfastelpunni úr Tungunum sem hún kyssti á Jónsmessublótinu. Hugleiðingar um eðli ástarinnar leita einnig mikið á hana og um samskipti kynjanna – enda heldur móðir hennar yfir henni varnaðarræðu um léttúð og karlmenn þegar hún grípur hana við að spila á langspil og syngja á rúmstokki aldraðs vinnumanns; varar hana við þeim eldi sem getur kveikt í stúlkum og brennt þær til ösku (63). Undir lok bókarinnar heimsækja systurnar Oddný og Setselja eldri frænkur sínar í Króki, Þórdísi og Steinunni sem fagna þeim, bregða á ýmsa leiki og halda yfir þeim innblásnar ræður um ýmsar hliðar þess að vera kvenmenn í íslensku samfélagi og um samskipti við karlmenn. Ekki síst boða þær mikilvægi menntunar og sjálfstæðis; „það má aldrei taka sér frí frá lestri og grúski“ (118) segir Steinunn og einnig: „Plís, ekki verða annarra skoðanaþræll og hirða upp própagrandað úr ungum bóndasyni sem masar í frösum í því skyni að breiða yfir hungrað ástarbetl en það gera karlmenn í massavís með alls kyns lúðrablæstri göfugugga“ (118). Og Þórdís bætir við: „Fyrir eigin heill og samfélagsins skulu stúlkur stunda vitsmunalíf og menntast“ (120) […] „það fer fullkomlega framhjá konungi, landshöfðingja, landsdómara, landlækni, sýslumönnum, prestum, foreldrum, öllu umsjónarfólki kvenæsku Íslands“ (120). Það bendir allt til þess að bókarflokkurinn Móðurást verði í fyllingu tímans grundvallarrit íslenskra skáldbókmennta um hlutskipti kvenna, tilfinningar þeirra og hugsanir. Það er unun að lesa ljóðrænan og innblásinn stíl Kristínar Ómarsdóttur, hvort sem hún er að lýsa hugsunum og samskiptum kvenna eða náttúrunni, sem ekkert hefur verið minnst á í þessum pistli. Ég vona að höfundur standi við að koma út ekki færri en níu bindum – en um það voru, ef ég man rétt, gefin fyrirheit þegar fyrsta bókin kom út. Soffía Auður Birgisdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, fjallar um Móðurást: Sólmánuð eftir Kristínu Ómarsdóttur. „Ég vona að höfundur standi við að koma út ekki færri en níu bindum en um það voru, ef ég man rétt, gefin fyrirheit þegar fyrsta bókin kom út.“ Soffía Auður Birgisdóttir er doktor í bókmenntafræði og starfar við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún flutti pistilinn í Víðsjá sem finna má í spilaranum hér að ofan.