Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað fyrir tveimur árum að leggja niður Borgarskjalasafnið í sparnaðarskyni og flytja verkefnin yfir á Þjóðskjalasafnið. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd, meðal annars af fræðimönnum. Undanfarin misseri hafa starfsmenn Borgarskjalasafnsins unnið að því að pakka niður gögnum og flytja. „Þetta eru um 50 þúsund öskjur eða sjö hundruð vörubretti. Þannig að það tekur tíma að ganga frá þessu og koma þessu úr húsi,“ segir Andrés Erlingsson verkefnastjóri Borgarskjalasafnsins. Nú þegar er búið að flytja 118 bretti af gögnum. Lesstofunni var lokað í dag en þar hefur verið aðstaða fyrir fræðimenn og aðra til að sinna rannsóknum. „Færri hafa verið að koma á lesstofuna en áður og fyrirspurnir fara að mestu í gegnum rafræn samskipti. En það er alltaf einhver reytingur af fólki sem er að grúska í sögu Reykjavíkur,“ segir Andrés. Áfram verður hægt að senda fyrirspurnir á safnið eða þar til búið verður að flytja öll gögn yfir á Þjóðskjalasafnið. Ráðgert er að því verkefni verði lokið um mánaðamótin febrúar mars. Lesstofunni hefur þó verið lokað í síðasta sinn.