Minntust ungra manna sem féllu fyrir aldur fram

Vel á þriðja hundrað manns fjölmenntu við Reykjavíkurtjörn í kvöld og kveiktu á kertum til minningar um unga menn sem glímdu við fjölþættan vanda og létust fyrir aldur fram. Margrét Þorgrímsdóttir, skipuleggjandi viðburðarins, segir að ákveðið hafi verið að engin ræðuhöld yrðu á samkomunni til marks um ærandi þögnina sem mæti málaflokknum. Hjörleifur Björnsson, mágur Margrétar, missti son sinn í september. „Það er virkilega dýrmætt fyrir okkur öll, foreldrana sem vorum hérna, að sjá fleiri hundruð manns koma og sýna þennan ótrúlega samhug. Þetta gefur okkur mikinn styrk, vegna þess að þegar þú ert búinn að ganga í gegnum þetta þá upplifirðu oft að þú talir bara algjörlega fyrir dauðum eyrum. En það bara er að breytast og við erum öll þakklát fyrir það,“ segir Hjörleifur.