Kristný bjó til tónlistarmyndband með brúðum í bílskúrnum

Kristný Eiríksdóttir er ung kvikmyndagerðarkona sem fékk það verkefni í haust að búa til tónlistarmyndband við eitt af jólalögum þeirra GDRN og Magnúsar Jóhanns, Það sem jólin snúast um. Kastljós kíkti í heimsókn til Kristnýjar í bílskúr í Mosfellsbæ, þar sem hún sat yfir brúðum og Barbie-dóti – og hafði raunar gert meira eða minna síðan í september. Kristný framleiðir myndbandið ein síns liðs með svokallaðari hikmyndagerð (e. stop-motion) en það tekur hana um mánuð að búa til mínútu af efni fyrir tónlistarmyndbandið. „Þetta er bara smá listaverk finnst mér, frá því að skapa brúðurnar og settin og stjórna öllu sem er í rammanum. Þetta er allt handgert, það er engin gervigreind og maður sér að þetta er handgert,“ segir Kristný.