Hætt við byggingu Trump-turns á sögulegum rústum í Belgrad

Hætt hefur verið við fyrirhugaða byggingu lúxushótels á rústum höfuðstöðva fyrrum júgóslavneska hersins í Belgrad. Aleksandar Vučić forseti Serbíu staðfesti þetta á þriðjudag og sagði fjárfestingafélag Jareds Kushner, tengdasonar Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hafa hætt við áætlanirnar. Til stóð að hótelinu fylgdi svokallaður Trump-turn með nafni ættarveldisins í hástöfum. Affinity Partners, fjárfestingafélag Kushners, staðfesti í viðtali við Wall Street Journal á mánudag að það hefði hætt við þátttöku í verkefninu. Í tilkynningunni sagði fyrirtækið að stórverkefni á borð við þetta ættu að skapa samheldni meðal fólks en ekki að sundra því og að ákvörðunin hefði verið tekin af virðingu við serbnesku þjóðina og Belgrad. „Nú sitjum við uppi með ónýta byggingu og það er bara tímaspursmál þar til múrsteinar og aðrir hlutir fara að detta af henni, því enginn á eftir að snerta hana framar,“ sagði Vučić við fjölmiðla í Belgrad. Áætlanirnar um framkvæmdirnar höfðu verið mjög umdeildar meðal Serba. Byggingin sem stóð til að rífa skemmdist í loftárásum NATO á tíma Júgóslavíustríðanna árið 1999 og er því tákn um þjóðarandspyrnu gegn ágangi Vesturlanda í huga margra Serba. Hugmyndin um að rífa bygginguna til að rýma fyrir bandarísku lúxishóteli hafði því farið misjafnt í landsmenn. Ásakanir um spillingu höfðu jafnframt einkennt áætlanirnar. Sama dag og fyrirtæki Kushners tilkynnti að það hefði hætt við þátttöku í verkefninu var Nikola Selaković, menningarmálaráðherra í stjórn Vučić, ákærður fyrir að falsa gögn til þess að taka bygginguna af lista yfir vernduð mannvirki í Belgrad.