Loka á ferðir olíuflutningaskipa til og frá Venesúela

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti á þriðjudag að hann hefði skipað „algera og fullomna“ lokun á ferðum olíuflutningaskipa á þvingunarlista Bandaríkjastjórnar til og frá Venesúela. Í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, sagði Trump að ríkisstjórn Nicolás Maduro, forseta Venesúela, hefði verið skilgreind sem erlend hryðjuverkasamtök. „Þar af leiðandi skipa ég í dag ALGERA OG FULLKOMNA STÖÐVUN OLÍUFLUTNINGASKIPA Á ÞVINGUNGARLISTA til og frá Venesúela,“ skrifaði Trump. Hann sakaði stjórn Maduro jafnframt um að fjármagna sig með illa fenginni olíu og „Eiturlyfja-Hryðjuverkum, Mansali, Morðum og Mannránum [hástöfun hans].“ Bandaríkjaher hefur aukið viðveru sína á Karíbahafi, stutt frá ströndum Venesúela, að undanförnu og hefur gert fjölda mannskæðra árása á skip og báta sem Bandaríkjastjórn segir hafa ætlað að smygla fíkniefnum frá Rómönsku Ameríku til Bandaríkjanna. Í færslu sinni á þriðjudagskvöld sagði Trump að viðvera Bandaríkjahers kæmi til með að aukast enn frekar nema að Venesúela „skili Bandaríkjunum allri Olíu, Landi og öðrum Eignum sem þeir [hafi] áður stolið frá okkur.“ Í síðustu viku lögðu bandarískir hermenn hald á olíuflutningaskip við strendur Venesúela og sigldu með það til Bandaríkjanna.