Halldór Blöndal látinn

Halldór Blöndal er látinn. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi aðfaranótt þriðjudags, 87 ára að aldri. Halldór átti langan stjórnmálaferil, var fyrst kjörinn á Alþingi árið 1979, þá alþingismaður Sjálfstæðisflokksins frá Norðurlandi eystra. Hann átti eftir að sitja á Alþingi til ársins 2007. Fæddist í Reykjavík og útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri Foreldrar Halldórs voru Kristjana Benediktsdóttir (1910-1955), systir Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra (1908-1970), og Lárus H. Blöndal bókavörður (1905-1999). Hann var einn fimm systkina. Halldór fæddist í Reykjavík 24. ágúst árið 1938 og ólst upp á Laugavegi. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959 og lagði nám í lögum og sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann kvæntist Renötu Brynju Kristjánsdóttur árið 1960. Þau áttu saman dæturnar Ragnhildi og Stellu en skildu síðan. Renata lést árið 1982. Árið 1969 kvæntist Halldór Kristrúnu Eymundsdóttur en saman eignuðust þau Pétur. Fyrir átti Kristrún Eymund Matthíasson Kjeld og Þóri Bjarka Matthíasson Kjeld. Kristrún lést árið 2018. Hvalskurður, blaðamennska og kennsla meðal fyrri starfa Halldór starfaði í hvalveiðistöðinni í Hvalfirði á fimmtán vertíðum, frá árinu 1954 til 1974. Þar vann hann við hvalskurð. Hann starfaði síðan á Endurskoðunarstofu Björns Steffensens og Ara Ó. Thorlacius á Akureyri frá 1976 til 1978. Halldór ritstýrði fjölda tímarita á síðari hluta 20. aldar. Það eru tímaritin Gambri (1955-1956), Muninn (1958-1959), Vaka (1964), Vesturland (1967) og Íslendingur (1973-1974). Þá kenndi Halldór bæði í Reykjavík og á Akureyri og var blaðamaður á Morgunblaðinu með hléum frá 1961 til 1979. Sat á Alþingi í um 30 ár Halldór var sem fyrr segir fyrst kjörinn á þing árið 1979. Hann settist þó fyrst á þing sem varaþingmaður Norðurlands eystra fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1971. Halldór var alþingismaður Norðurlands eystra frá árinu 1979 til 2003. Frá 2003 til 2007 var hann alþingismaður Norðausturkjördæmis, en árið 2003 var í fyrsta skipti kosið samkvæmt nýrri kjördæmaskipan. Halldór gegndi embætti landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1991 til 1995 og embætti samgönguráðherra frá 1995 til 1999. Þá var hann forseti Alþingis frá 1999 til 2005.