Undir ráðherra komið hvort hann snúi aftur í stólinn

Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra þarf sjálfur að meta hvort og hvenær hann snýr aftur í ráðuneyti sitt að loknu veikindaleyfi. Þetta segir Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra. „Guðmundur Ingi er að gangast undir aðgerð og það er í fyllingu tímans hans að meta,“ segir Inga, en hún greindi frá því í Silfrinu á mánudagskvöldið að óvíst væri hvort Guðmundur Ingi myndi snúa aftur í ráðuneytið eftir opna hjartaaðgerð, sem hann fer í eftir áramót. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tók í sama streng. „Þetta er ekki til umræðu núna, við erum fyrst og fremst að hugsa til Guðmundar núna í aðdraganda aðgerðar.“ Hefur eitthvað verið til umræðu að Ásthildur Lóa Þórsdóttir [forveri Guðmundar Inga í ráðuneytinu] komi aftur í ríkisstjórn? „Eins og ég segi - við höfum ekki verið að ræða neinar breytingar á ríkisstjórn. Það verður alltaf undir ráðherra sjálfum komið að meta eigið heilsufar,“ segir Kristrún. „Getur ekki verið allt of lengi“ Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra fer með ráðuneyti Guðmundar Inga í fjarveru hans - sem óvíst er hversu lengi varir. Spurð hvort æskilegt sé að sami ráðherrann fari með tvö stór og viðamikil ráðuneyti segir Kristrún að allnokkur fordæmi séu fyrir slíku tímabundið. „Það getur auðvitað ekki verið allt of lengi en eins og sakir standa er þetta ákvörðun sem er tekin út frá tímabundnu veikindahléi. Svo þurfum við að taka stöðuna - fyrst og fremst ráðherra sjálfur, Guðmundur Ingi, hver hans staða er eftir aðgerðina. Við auðvitað óskum honum góðs bata og að hann nái sér að fullu.“ Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að gert sé ráð fyrir að aðgerðin tryggi Guðmundi Inga fullan bata til lengri tíma og að hann snúi aftur til starfa í kjölfarið. Ríkisráðsfundur, sá síðasti á árinu, er áformaður 30. desember.