PPP-málið sýni þörf á strangari reglum um hagsmunaárekstur

Hið svokallaða PPP-mál sýnir að þörf er á strangara regluverki um mögulega áhættu í tengslum við aukastörf lögreglumanna og störf sem þeir taka að sér eftir að þeir hætta hjá hinu opinbera. Þetta kemur fram í skýrslu GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, um athugun þeirra gagnvart Íslandi. Mikið hefur verið fjallað um njósnafyrirtækið PPP, sem fyrrverandi lögreglumenn stofnuðu 2011, eftir að greint var frá því að það hefði njósnað fyrir kaupsýslumanninn Björgólf Thor Björgólfsson. GRECO gerði árið 2018 átján tillögur til úrbóta til æðstu handhafa framkvæmdavalds á Íslandi og löggæslu. Í nýjustu skýrslu GRECO segir að Ísland hafi innleitt þrettán af átján tillögum með fullnægjandi hætti. Af þeim fimm sem sitja eftir hafi fjórar verið innleiddar að hluta. Ekkert regluverk til að draga úr hagsmunaárekstrum Ein þeirra snýr að aukastörfum lögreglumanna. Lagt er til að athugun verði gerð á aukastörfum lögreglumanna og starfsmanna Landhelgisgæslu og störfum sem þeir taka að sér eftir að þeir ljúka störfum hjá hinu opinbera. Koma þurfi á strangara regluverki sem dragi úr líkum á hagsmunaárekstrum. Að sögn GRECO hefur ekkert slíkt regluverk verið kynnt. Í nýjustu skýrslunni segir að það sé hins vegar ánægjulegt að ríkislögreglustjóri hafi birt úttekt á störfum fyrrverandi lögreglumanna á Íslandi eftir starfslok. Hún nær yfir tímabilið 2012 til 2017. „GRECO vísar sérstaklega til máls sem fjallað er um í úttektinni þar sem einkarekið öryggisfyrirtæki, stofnað og rekið af fyrrverandi lögreglumönnum um árið 2012, er talið hafa verið þátttakandi í leynilegu eftirliti, upplýsingaöflun og annarri starfsemi í þágu fyrirtækja,“ segir í skýrslunni og er vísun til PPP. Engin viðurlög við brot á siðareglum Einnig eru gerðar athugasemdir við að lögreglumönnum sé ekki boðið upp á faglega ráðgjöf að kostnaðarlausu þegar siðferðileg álitamál koma upp við störf. Ein athugasemdin snýr að því að stjórnvöld hafi ekki sett reglur um viðurlög við brotum gegn siðareglum. Þá séu heldur engin viðurlög við því að embættismenn geri ekki réttilega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum. Sú tillaga sem hefur ekki verið innleidd að neinu leyti snýr einnig að löggæslu. Lagt er til að skýr, sanngjörn og gegnsæ viðmið liggi fyrir við ákvörðun um að endurnýja ekki skipun lögreglumanna og starfsmanna Landhelgisgæslu og að skýrt ferli sé til staðar til að kæra slíka ákvörðun. Í skýrslunni segir þó að íslensk stjórnvöld haldi því fram að sértækar verklagsreglur um endurráðningar og endurnýjun samninga séu enn í þróun. Búist sé við því að þær verði gefnar út á þessu ári.