Ekið á gangandi vegfaranda á Sæbraut

Ekið var á gangandi vegfaranda við gatnamót Sæbrautar og Skeiðarvogs rétt fyrir klukkan átta í morgun. Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki ljóst hvernig staða umferðarljósa var á vettvangi en lögregla sé að skoða það. Hann segir að það hafi verið dimmt þegar slysið var og einhver hálka. Vegfarandinn var ekki með alvarlega áverka en var fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Unnar bendir ökumönnum bifreiða á að fara varlega og vera meðvitaða um umhverfi sitt. Gangandi, hjólandi og fólk á rafskútum þurfi einnig að vera sýnilegt. „Á Íslandi klæðast flestir dökkum fatnaði, ódýrasta forvörnin er að vera með enduskinsmerki.“