Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlar til almennings um aðstoð vegna rannsóknar á andláti karlsmanns í heimahúsi í Kópavogi í lok nóvember. Í tilkynningu biður lögreglan um myndefni frá vegfarendum sem fóru um bifreiðastæði við Kópavogslaug og göturnar Skjólbraut, Borgarholtsbraut, Meðalbraut og Kópavogsbraut föstudaginn 28. nóvember frá kl. 18 og til miðnættis. Í tilkynningunni segir að þar sem mörg ökutæki séu búin myndavélum sé viðbúið að myndefni frá áðurnefndum tíma sé að finna í fórum vegfarenda. Einnig er biðlað til forsvarsmanna öryggismyndavéla sem kunna að vera á umræddu svæði að athuga með myndefni vegna málsins. Einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Hægt er senda upplýsingar á netfangið r2a@lrh.is og gefa upp nafn og símanúmer. Í framhaldinu verður haft samband við viðkomandi. Þá má líka hringja inn ábendingar í síma 444 1000.